Verkefni

Samfélagsmál

Melrakkasetrið sinnir sínu nærsamfélagi og býður nemendum á Vestfjörðum upp á fræðslu um melrakka, mýs og fleiri spendýr í íslenskri náttúru. Unnið er í samstarfi við kennara skólans eftir því sem hægt er að koma því við. Börnin læra um spendýr á Íslandi með sérstakri áherslu á og melrakka.

Má segja að börnin séu mjög áhugasöm og mörg hver ansi vel að sér um spendýrin okkar, margar nýjar hugmyndir hafa vaknað um efni og framsetningu á sýninguna í kjölfar þessara skólaheimsókna.

Allir íbúar Súðavíkur fá frítt inn á sýningu Melrakkasetursins og eiga sérstakt aðgangskort því til staðfestingar. Börn þurfa þó að koma í fylgd fullorðinna.


Krufningar

Melrakkasetur Íslands og Náttúrustofa Vestfjarða eru í samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands um söfnun refahræja til krufninga og rannsókna. Umsjón með verkefninu er í höndum Náttúrufræðistofnunar en Náttúrustofa Vestfjarða hefur haft frystikistu í Bolungarvík þar sem veiðimenn geta skilað inn hræjum. Þeir bræður Guðmundur og Ragnar heitinn Jakobssynir hafa góðfúslega lánað aðstöðu til krufninga í Bolungarvík.


Sýning

Eitt af meginmarkmiðum með stofnun Melrakkaseturs Íslands var að setja upp sýningu um melrakkann og allt sem honum viðkemur í fortíð og nútíð, líffræði hans og þróunarsögu. Ennfremur að segja sögu refaveiða og refaræktar en líklegast eru refaveiðar ein elsta launaða starfsgrein íslendinga.
Sýningin er til húsa í gamla Eyrardalsbænum í Súðavík, sem hefur verið gert upp og er hið glæsilegasta. Í húsinu er safn minja og muna um refaveiðar, lifandi myndefni, uppstoppuð dýr og áhugaverðir hlutir sem hægt er að skoða með hjálp tækninnar og hefðbundinna tækja... sjón er sögu ríkari.
Stjórn og bakland Melrakkaseturs hjálpuðust að við að setja upp sýninguna. Hönnuðir efnis og veggspjalda voru Ester Rut Unnsteinsdóttir (líffræði) og Auður Alfífa Ketilsdóttir (veiðisaga og veiðimenn).


Vefmyndasafn melrakka

Melrakkasetrið hefur ásett sér að safna stærsta vefmyndasafni sem til er með ljósmyndum af melrökkum, helst sem flestum frá Íslandi.
Myndasafnið er samansafn mynda sem safnast með frjálsum framlögum myndeigenda, einnig myndum sem við höfum sjálf tekið í starfi okkar við rannsóknir og vöktun á íslenskum refum.
Allir sem vilja leggja þessu verkefni lið geta sent myndir sínar með tölvupósti til melrakki@melrakki.is

Hægt er að skoða myndirnar á www.melrakki.is/myndasafn


Leikrit um melrakka

Halla Margrét Jóhannesdóttir var leikstjóri leikverksins Gaggað í grjótinu sem sýnt var í Melrakkasetri Íslands í Eyrardal sumarið 2011. Hún ritaði jafnframt handritið ásamt Kómedíuleikaranum Elfari Loga Hannessyni en það er Kómedíuleikhúsið sem stendur að verkinu. Hér er um að ræða einleik um refaveiðimann, grenjaskyttu sem veltir fyrir sér lífi rebba meðan hann bíður færis við greni.
Kómedíuleikhúsið hlaut styrk frá Menningarráði Vestfjarða, í úthlutun á Reykhólum þann 4. desember, til að mæta kostnaði við verkið. Ekki hefur verið sett á svið leikrit um tófuna áður, svo vitað sé.


Áhrif ferðamanna á refi

Markmið rannsóknarinn er að kanna áhrif ferðamanna á atferli refa við greni í friðlandinu á Hornströndum.
Fylgst er með ferðum refahjóna til og frá greni, hvert þeir fara, á hvaða tímum og komur þeirra með fæðu heim á grenið. Sérstök áhersla er lögð á viðbrögð refanna við komu ferðamanna og áhrifum þess á viðverutíma við grenið, tíðni fæðuöflunar og ferða, hvíld og varnaratferli. Fæðan sem refirnir bera heim á greni er skráð niður og athugað hvort og þá hve mikill hluti fæðu er fenginn frá ferðamönnum.

Hið Villta Norður - The wild North

Melrakkasetrið er þátttakandi í norrænu samstarfsverkefni sem kallað er The Wild Nortð, eða Hið Villta Norður.
Helstu markmið þátttakenda Wild North verkefnisins eru að leggja sitt af mörkum við uppbygginu sjálfbærrar, náttúrulífsferðaþjónustu (wildlife tourism) á Norðurslóðum, og treysta með því undirstöður greinarinnar, afkomu þeirra sem í henni vinna og notkun auðlindarinnar til langs tíma.
Þátttakendur verkefnisins eru ferðaþjónustufyrirtæki sem sérhæfa sig í ferðamennsku tengdri villtum dýrum, opinberir aðilar og ýmsar rannsóknastofnanir. Wild North er alþjóðlegt samstarfsverkefni með samstarfsaðila á Íslandi, í Noregi, Færeyjum og á Grænlandi. Ráðgjafi verkefnisins er Deborah Benham frá Dolphin Space Programme í Skotlandi.
Melrakkasetrið er leiðtogi Vestfjarðarklasa verkefnisins, með þátttakendur eru Náttúrustofa Vestfjarða, Rannsókna- og fræðasetur HÍ á Vestfjörðum, Vesturferðir og Borea Adventures.

Handverk

Melrakkasetrið hvetur til handverks framleiðslu með tilvísun í villt dýr, Vestfirði og tengt málefni.
Áhgugi er fyrir allskonar hlutum og handverki sem hægt er að selja ferðamönnum og til ýmissa nytja, úr allskonar efni og af ýmsum stærðum og gerðum.
Við höfum áhuga á að taka í umboðssölu ýmsan varning sem helst ekki hefur sést hér til sölu áður, en einnig hefðbundna muni svo sem prjónels, trévörur og fleira...