Styrktarsjóður Jönu Sam

Jönusjóður

Fyrr í sumar barst Melrakkasetrinu myndarlegur fjárstyrkur frá Kristjönu Samúelsdóttur sem er 92 ára en hún er fædd í Álftafirði en bjó allan sinn búskap á Ísafirði. Kristjana, sem kölluð er Jana, kom í heimsókn snemmsumars og hreifst svo af Melrakkasetrinu að hún ákvað strax að styrkja verkefnið. Hún beið ekki boðanna heldur fór strax í bankann og gekk frá málinu.
Samúel, faðir Kristjönu, var vinnumaður í Eyrardal fyrrihluta sl. aldar. Sagan segir að Sigríður Jónsdóttir, dóttir Jóns "ríka" og Karitasar í Eyrardal, hafi verið ástfangin af Samúel en ekki fengið að eiga hann. Sigríður giftist aldrei en bjó áfram í Eyrardal eftir að bærinn var seldur.

Jana hefur taugar til hússins, eins og reyndar margir aðrir sem þekktu til bæjarins og íbúa hans. Henni þykir vænt um að húsið hafi verið gert upp og finnst Melrakkasetrið alveg frábært verkefni fyrir þetta gamla og fallega hús.

Við erum þakklát fyrir velvild og stórhug Jönu.

Nú höfum við stofnað sérstakan reikning þar sem upphæðin frá Jönu var lögð inn sem stofnfé. Inn á þennan reikning safnast frjáls framlög og styrkir frá þeim sem vilja leggja okkur lið eins og Kristjana gerði svo myndarlega. Okkur er heiður að fá að nefna sjóðinn „Jönusjóð".

Okkur langar að nota þessa fjármuni í sérstök verkefni sem samræmast markmiðum okkar á Melrakkasetrinu en eru of kostnaðarsöm til að við ráðum við þau. Við vonum að okkur beri gæfa til að nýta þessa fjármuni vel svo velunnarar okkar geti verið stoltir af framlagi sínu.

Jana Sam fallin frá

Kristjana Guðný Samúelsdóttir, hún Jana okkar Sam, helsti hollvinur Melrakkasetursins, fæddist í Meiri-Hattardal í Álftafirði 12. maí 1918. Hún lést á öldrunardeild Fjórðungssjúkrahússins á Ísafirði 13. nóvember 2011.
Eins og fram hefur komið hér á síðunni ánafnaði Jana setrinu dágóðri upphæð sumarið 2010, eftir að hafa komið í heimsókn og heillast að því hvað húsið var orðið fallegt og hvað verkefnið sem það hýsir, Melrakkasetrið, var sniðugt að hennar mati.

Eftir andlát Jönu Sam hefur Melrakkasetrinu borist fjárstuðningur inn á Jönusjóðinn - til minningar um hana. Við erum þakklát fyrir stuðninginn og viss um að Jana er ánægð með að aðrir skyldu halda áfram að styðja við það sem henni þótti mikilvægt.

Ef stuðningsaðilar vilja setja nafn sitt hér hjá Jönu, þá er hægt að setja nafn sitt í "Athugasemdir" hér fyrir neðan eða senda okkur tölvupóst til melrakki@melrakki.is

Með kærum þökkum, fyrir hönd Melrakkaseturs Íslands

Ester Rut Unnsteinsdóttir, forstöðumaður
sími: 862 8219