Grenjaskyttur

Þekktar grenjaskyttur fyrri tíma

Hér verða settar inn frásagnir af mönnum sem höfðu atvinnu af refaveiðum og grenjavinnslu fyrr á tímum. Margir þeirra urðu að goðsögn í lifanda lífi enda mikill ljómi yfir starfi þeirra.

Sem dæmi um þekktar grenjaskyttur eru þeir Guðmundur Einarsson, Brekku í Dýrafirði, Finnbogi Pétursson sem bjó að Litla Bæ í Skötufirði, tvíburabræðurnir Guðmundur Stefán og Þorlákur Hinrik (Hrefnu Láki) Guðmundssynir sem fæddust í Eyrardal í Álftafirði. Yngri menn eru t.d. Jón Oddson eða "Jón rebbi" en hann var tengdasonur Guðmundar Einarssonar. Theodór Gunnlaugsson frá Bjarmalandi skráði æviminningar Guðmundar Einarssonar og heitir bókin "Nú brosir nóttin" en Theodór skrifaði einnig hina stórmerku bók "Á refaslóðum". Á sýningu Melrakkasetursins er hægt að hlusta á viðtal við Theodór og heyra hann útskýra hin ýmsu blæbrigði refarmálsins sem hann skildi og "talaði" sjálfur.

Á sýningunni er einnig efni og munir frá núlifandi goðsögnum, t.d. Kjartani Geir Karlssyni í Súðavík sem lánaði forláta gærusvefnpoka sem hélt á honum hita við refaveiðar. Einnig eru melrakkabelgir sem eru "spýttir" af Guðmundi Jakobssyni frá Reykjafirði á Ströndum. Guðmundur notaði til þess þurrkgrindur frá Reykjafirði og Litlabæ í Skötufirði (Finnbogi Pétursson).

Það er Valdimar Gíslason að Mýrum í Dýrafirði sem safnar upplýsingum um "gamla refi" þ.e. grenjaskyttur fyrri ára. Guðmunda Guðmundsdóttir, yngsta dóttir Guðmundar Einarssonar á Brekku og eiginkona Jóns Oddssonar, hefur veitt ómetanlegar upplýsingar.

Auður Alfífa Ketilsdóttir, nemandi í hagnýtri menningarmiðlun við Háskóla Íslands hannar og setur upp sýningu í Eyrardal, m.a. um grenjaskyttur fyrri tíma.Aðrar frásagnir eru fengnar úr Lesbók Morgunblaðsins frá miðri síðustu öld. Myndir eru fengnar af sama stað og úr einkasöfnum. Oddný Bergsdóttir í Súðavík hefur safnað efninu saman fyrir Melrakkasetrið.

Við höfum áhuga á að safna sögnum af sem flestum refaskyttum og þiggjum allt efni sem okkur er sent.