Stofnstærð

Stofnstærð og stofnsveiflur

Veiðitölur til stofnmats

Veiðitölur gefa til kynna að stærð íslenska melrakkastofnsins hafi sveiflast töluvert undanfarin 150 ár. Þó verður að fara varlega í að túlka veiðigögn því þau fjalla um fjölda veiddra dýra en ekki eiginlega stofnstærð. Þær upplýsingar sem til eru frá 19. öld og upphafi 20. aldar eru tölur yfir skinnaútflutning. Melrakkaskinn/belgir voru verðlaus að sumarlagi og því verður að líta svo á að tölurnar tákni í besta falli fjölda þeirra dýra sem veiddust að vetrarlagi, líklega mest á tímabilinu nóvember til mars.

Það er þó fleira sem ræður vetrarveiði en stærð melrakka­stofnsins. Þar má helst nefna aðgang melrakkans að æti, en flest vetrarveidd dýr voru á þessum tíma skotin við æti, drepin með eitri í æti eða tekin í egndar gildrur þótt gildruveiði væri þá mjög á undanhaldi.

Þegar hart er í ári sækir melrakkinn meira en ella í hræ sem borin eru út af mönnum sem agn. Reyndar má gera ráð fyrir að sveiflur þær sem greina má í útflutningi á melrakkaskinnum á 19. öld og í upphafi þeirrar 20. stafi bæði af breytilegri stofnstærð og breytilegu fæðuframboði, auk þess sem vitað er um nokkra faraldra hundafárs á þessu tímabili en hundafár leggst á tófur jafnt sem hunda (Þorvaldur Thoroddsen 1908, Páll Hersteinsson 1987).

Á síðari hluta 20. aldar má greina nánast samfalda fækkun veiddra melrakka frá því á 6. áratugi aldarinnar og fram á miðjan 8. áratuginn. Þá tekur veiðin að aukast á ný og stendur aukningin samfellt til loka aldarinnar. Ólíkt veiðitölunum frá 19. öld og fyrri hluta 20. aldar, eru veiðitölurnar frá síðari hluta 20. aldar ekki eingöngu vetrarveidd dýr, heldur eru tölurnar sundurliðaðar eftir því hvort dýrin unnust á greni að sumarlagi eða veiddust sem hlaupadýr, aðallega að vetrarlagi. Jafnframt sýna þessar tölur fjölda unninna grenja og fjölda unninna yrðlinga á grenjum og því má reikna út vísitölu gotstærðar (yrðlingar/greni).


Aðrar aðferðir

Til eru fleiri aðferðir til þess að meta stofnstærð en veiðitölur og er hægt að beita þeim til viðbótar til að styrkja niðurstöðurnar. Á Íslandi er stofnstærð metin með svokallaðri aldurs-afla aðferð. Þessi aðferð er notuð fyrir dýr sem eru veidd jafnt og þétt og góð gögn eru fyrir hendi um veiðina en auk þess þurfa að liggja fyrir upplýsingar um náttúrulega dánartíðni og aldurssamsetningu [I1] veiddra dýra á hverjum tíma.

Á Íslandi höfum við gögn um fjölda veiddra dýra frá 1958 og aldursdreifingu veiddra dýra frá 1979. Hérlendis vantar þó upplýsingar um náttúruleg vanhöld en þau eru talin lítil eftir 4 mánaða aldur þar sem fáir sjúkdómar[1] herja á íslenska stofninum og lítið er um hungurdauða, þar af leiðandi hentar aðferðin ágætlega til stofnmats. Niðurstöður þessarar aðferðar sýna svo að ekki verður um villst að stofninn hefur stækkað mikið frá þessu tímabili. Engin einföld skýring er til á þeirri miklu aukningu sem veiðitölur og útreikningar stofnstærðar sýna að orðið hefur síðastliðna fimm áratugi.

Eitrun fyrir melrakka var heimil í upphafi tímabilsins en hún var bönnuð árið 1964. Þrátt fyrir það hélt stofninn áfram að minnka í áratug eftir bannið. Veiðitölurnar benda hins vegar til þess að á fækkunartímanum hafi orðið nokkur breyting á viðkomu / samsetningu í stofninum. Hlaupadýrum fór mjög fækkandi í veiðinni sem gæti bent til þess að geldtíðni hafi verið há í upphafi tímabilsins.

Tölurnar benda ennfremur til þess að gotstærð hafi farið vaxandi þar sem meðalfjöldi yrðlinga sem veiddist á hverju greni jókst út allt þetta tímabil.

[1] sjúkdómar í íslenskum refum:

Refavanki, sjúkdómur af völdum frumdýrs, fyrirfinnst í íslenska melrakkastofninum. Sjúkdómurinn getur dregið yrðlinga til dauða og valdið fósturláti í læð­um en hefur engin áhrif á fullorðna melrakka.
Snoðdýr kallast melrakkar með smitsjúkdóm sem veldur hárleysi og skertum hárvexti. Þetta eykur vanhöld meðal yrðlinga en virðist ekki valda miklum vanhöldum á fullorðnum melrökkum. Snoðdýr eru bara þekkt meðal íslenskra melrakka.
Á takmörkuðu svæði í Strandasýrslu er eyrnamaur í melrökkum en virðist ekki valda vanhöldum.
Smitandi lifrar- og heilabólga er ekki þekkt í villtum melrökkum á Íslandi.

[I1] Aldur er metinn með því að telja árhringi í tönnum sem hafa verið þunnskornar og litaðar. Sneiðarnar eru skoðaðar í smásjá og árhringir taldir líkt og gert er með aldursmat á trjám.

----------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

(C) Melrakkasetur Íslands, Hólmfríður Sigþórsdóttir tók saman