Útbreiðsla

Útbreiðsla melrakka og búsvæði á Íslandi

Melrakkinn er norðlægasta refategundin og útbreiddur á ströndum og eyjum allt í kring um Norðurheimskautið. Nyrst er hann á Grænlandi (83°N) og syðst við Hudsonflóa í Kanada (54°N) en syðri útbreiðslumörk melrakkans miðast við norðurmörk barr­skóga­beltisins. Suðurmörk útbreiðslu melrakkans á meginlöndum Norður-Ameríku og Evrasíu ráðast líklega af útbreiðslu rauðrefs (Vulpes vulpes) sem er stærri en mel­rakk­inn og sigrar ávallt í beinum átökum milli tegundanna. Norðurmörk útbreiðslu rauð­refs ráðast hins vegar af fæðuframboði en rauðrefur er mun þurftarfrekari en mel­rakk­inn vegna stærðar sinnar og verri einangrunar feldarins að vetrarlagi (Hersteinsson & Macdonald 1992).

Á síðasta jökulskeiði, fyrir 117-10 þúsund árum, var útbreiðsla melrakkans allt önnur en nú, en þá fannst hann meðal annars sunnan ísaldarjökulsins í Evrópu allt suður til Ítalíu. Við lok Ísaldar hopaði melrakkinn norður á bóginn og settist meðal annars að á Íslandi þegar þar varð lífvænlegt. Melrakka hefur fækkað mikið í Skandinavíu og hefur verið friðaður þar í 70-80 ár (Hersteinsson o.fl. 1989).

Búsvæði melrakka eru mjög breytileg, allt frá því að hafa tiltölulega milt loftslag eins og á Aljútaeyjum til freðmýranna á kanadísku heimskautaeyjunum og í Síberíu sem eru með köldustu svæðum jarðar.

Melrakkinn hefur borist til landsins með hafís en ekki er ljóst hvort hann kom frá Grænlandi eða Vestur-Evrópu. Íslenski stofninn hefur að mestu verið ein­angr­að­ur síðan við lok ísalaldar (Dalén o.fl. 2005). Melrakkann er að finna um allt Ís­land að undan­skild­um jöklum og eyðimörkum miðhálendisins auk eyja kringum land­ið. Á Íslandi eru búsvæði melrakkans tvennskonar, við sjó og inn til landsins. Mest er um melrakka víða við sjávarsíðuna ekki síst í grennd við fuglabjörg og nær þéttleiki líklega há­marki í Hornstrandafriðlandi.(C) Melrakkasetur Íslands; Hólmfríður Sigþórsdóttir tók saman