Um Melrakka

Melrakki - tófa - refur - skolli ....

Ættfræði
Melrakkinn (Vulpes lagopus) er eina upprunalega landspendýrið á Íslandi. Hann tilheyrir hundaættinni (Canidae) en í henni eru 35 tegundir í 10 ættkvíslum. Kattrefurinn (Vulpes velox, e. Svift fox) og Vulpes macrotis (e. Kit fox) eru nánustu ættingjar melrakkans en þessar tegurnir lifa sitt hvoru megin við Klettafjölin (USA).

Útlit og stærð

Aðlögun að köldu loftslagi einkennir útlit tófunnar. Þykkt vetrarfeldarins gerir það að verkum að tófan virðist þéttvaxin með stutta útlimi, eyru og trýni. Í sumarfeldi lítur dýrið allt öðruvísi út, grannvaxið, háfætt og melrakkar af hvítu litarafbriðgði eru mislitir á sumrin (sjá um liti feldarins annars staðar á síðunni).

Stærð melrakka er breytileg en læður (kvendýr) eru yfirleitt nokkru minni en steggir (karldýr). Meðallengd á íslenskum refalæðum hefur mælst um 55cm (svið: 45-61) en 58cm (svið: 49-66) hjá steggjum (svið er minnsta og mesta mælda lengd). Skottið er um það bil tæpur helmingur af lengd búksins.

Þyngd er líka breytileg eftir árstímum en bæði kyn eru þyngri að vetrarlagi en á sumrin, aðallega vegna fitulags sem gegnir hlutverki einangrunar og orkuforða yfir veturinn.

Á Íslandi eru læður að meðaltali 3,7kg (svið: 2,5 - 5,6) að vetri en 3,2kg (svið: 2,5 - 4,5) að sumri. Steggir vega að meðaltali 4,3kg (svið: 2,8 - 5,8) að vetri en 3,6gk (svið: 2,6-5,4) að sumri.

Ýmis nöfn

Í bókinni ÍSLENSK SPENDÝR sem gefin var út af Vöku Helgafelli árið 2004 (1. útgáfa) og ritstýrt af Páli Hersteinssyni, er kaflinn "Tófa".

Þar eru rakin ýmis heiti sem notuð hafa verið á Íslandi í gegnum aldirnar. Sum þeirra hljóma kunnuglega en önnur ansi skringilega. Hér eru þessi nöfn í stafrófsröð:

djangi
djanki
dratthali
dýr
fjallarefur
fjallrefur
gráfóta
heimskautarefur
holtaþór
Lágfóta
melrakki
rebbali
rebbi
refur
skaufhali
skolli
tóa
tæfa
vargur
vembla

Nokkur orð hafa verið notuð til að aðskilja kynin, t.d. refur (kk) og tófa (kvk) en bæði orðin geta þó átt við um bæði kynin. Algengast sunnanlands er að nota steggur (kk) og læða (kvk) en í nokkrum heimildum koma fyrir orðin hvati (kk) og bleyða (kvk) og eru þau notuð um kynin hjá fleiri dýrategundum (skv. ábendingu frá Össuri Torfasyni og heimildum úr Orðabók Háskólans, PH/ERU).


(C) Melrakkasetur Íslands, samantekt: Hólmfríður Sigþórsdóttir / Ester Rut Unnsteinsdóttir