Þróun og aðlögun

Aðlögun

Aðlaganir tófunnar að heimskautaveðráttu, þær sem við sjáum í nútíma, eru í mesta lagi tveggja milljón ára gamlar. Aðlaganirnar felast annars vegar í einangrun og öðrum líkam­legum aðlögunum til að verjast varmatapi og hins vegar í aðlögun tengdri breytingum á framleiðni eða fæðuframboði heimskautasvæða.

Dæmi um aðlögun melrakkans:

· Feldurinn sem er samsettur úr tvenns konar hárum, vind­hárum og þeli. Vindhárin eru mun stinnari og einskonar burðargrind fyrir þelið sem er nokkurs konar loftgildra þar sem kyrrstætt loftið einangrar húðina frá kulda andrúms­loftsins. Vind­hárin eru einnig vörn gegn regni þannig að regndropar drjúpa af þeim án þess að ná inn í þelið. Í vetrarfeldi fer melrakkinn ekki að auka efnaskiptahraða fyrr en umhverfis­hiti er kominn niður í -35°C en hann hefur tvöfaldast við -70°C. Þá byrja melrakkar að skjálfa sér til hita.

· Fitusöfnun en mörg norðurhjara dýr safn miklu spiki fyrri hluta vetrar. Spikið er hluti af forðanæringu og safnast víða um líkamann, mest í kviðarholi og undir húð á bolnum.

· Mótstraumsvarmaskipti kallast það þegar slagæðar sem bera heitt súrefnisríkt blóð frá hjart­anu út í húðina á fótum fléttast innan um bláæðar sem bera súrefnissnautt og kalt blóð frá húðinni. Slagæðablóðið kólnar áður en það kemur út í húðina og varminn nýtist til að hita bláæðablóðið áður en það fer til hjartans.

· Stærð og lögun líkamshluta hafa líka aðlagast. Hlutfall yfirborðs miðað við massa hefur minnkað á dýrum á norðurhjara. Melrakkinn er til dæmis með mun minni eyru, styttra trýni, styttri háls og styttra skott en suðlægari frændur.