26.05.2008 - 21:43

LOGO

Á dögunum fór fram samkeppni um hönnun á einkennismerki Melrakkasetursins. Keppnin var auglýst í Fréttablaðinu og bárust tillögur frá fólki víða um landið. Sumar tillögurnar voru faglega unnar og greinilegt að metnaður lá þar að baki. Nokkrum tillögum fylgdi skýringartexti til að lýsa hugmyndinni bakvið tillöguna. Það var erfitt verkefni fyrir stjórn setursins að velja eit merki úr og tóku menn sér nokkurn umhugsunarfrest, saman og í sitthvoru lagi. Loks voru þrjú merki eftir og var endanleg ákvörðun tekin í kjölfar leynilegrar kosningar innan hópsins.

Merkið sem varð fyrir valinu hefur tilvísun í heimabæ Melrakkasetursins þar sem fjallið Kofri myndar bakgrunn og höfuð tófunnar trónar þar yfir. Merkið gefur möguleika á útfærslum og verður unnið nokkuð með það en sú vinna verður í höndum höfundarins, Kára Jarls Kristinssonar sem búsettur er á Seltjarnarnesi.

 

 

 

 

25.04.2008 - 09:25

Atferli refa

Nú í sumar mun fara af stað undirbúningsrannsókn á áhrifum ferðamanna á atferli refa á Hornströndum. Verkefnið er í umsjón Rannsókna- og fræðaseturs Háskóla Íslands í Bolungarvík en Melrakkasetur Íslands tekur einnig þátt í verkefninu. Um er að ræða einn þátt í samstarfsverkefni með Selasetri Íslands (áhrif ferðamanna á atferli sela) og Rannsóknarsetri HÍ á Húsavík og Hvalamiðstöðinni á Húsavík (áhrif ferðamanna á atferli hvala). Þetta er ansi viðamikið verkefni og verður spennandi að sjá hverjar niðurstöðurnar verða.

Ráðinn verður einn háskólanemi fyrir hvern þátt verkefnisins og verður það Borgný Katrínardóttir, nemandi á þriðja ári í líffræði við Háskóla Íslands, sem kemur til með að fylgjast með atferli refanna á Hornströndum í sumar.

Þar sem ferðamannatíminn á Hornströndum er afar stuttur en einmitt á sama tíma og refirnir á svæðinu (ásamt öðrum dýrategundum) eru að koma upp afkvæmum sínum, er áhugavert að skoða hvort og þá hvaða áhrif umferð ferðamanna hefur á hegðun dýranna. Vitað er að sumir refir á Hornströndum verða mjög spakir og sníkja mat af ferðamönnum en ekki er alveg ljóst hvort þetta eru stök dýr eða hvort þessi dýr eru með yrðlinga á greni. Einnig verður athyglisvert að skoða hversu mikinn mat refirnir fá frá ferðamönnunum og hvort sú viðbótarfæða skiptir þá einhverju máli. Umsjón með verkefninu hefur Ester Rut Unnsteinsdóttir.

Vefumsjn