28.06.2008 - 10:28

Opnun heimasíđu

kaka í tilefni opnunar heimasíđunnar - ala Amma Habbý
kaka í tilefni opnunar heimasíđunnar - ala Amma Habbý
« 1 af 4 »

Í dag er heimasíða melrakkasetursins loksins komin á netið, við óskum öllum til hamingju með það. Síðan mun verða fyrsti starfsvettvangur setursins þar til húsnæðið að Eyrardal í Súðavík kemst í gagnið og sýningin verður sett þar upp.

 

Þetta er líka í fyrsta sinn sem LOGO setursins er notað opinberlega en við erum afar ánægð með merkið og munum nota það í ýmsum formum við öll möguleg tækifæri. Hönnuður merkisins er Kári Jarl Kristinsson.

 

Fyrst um sinn verður eingöngu íslenska efnið virkjað en fljótlega munu svo erlendu tungumálin verða opin á veraldarvefnum.

 

Síðan verður seint eða aldrei fullkláruð og mun bætast inn á hana með tímanum. Mest munar þó um sögutengt efni og myndir af gömlum grenjaskyttum sem Valdimar Gíslason frá Mýrum við Dýrafjörð safnar saman.

 

Áberandi eru glæsilegar ljósmyndir frá Daníel Bergmann sem við fengum góðfúslega að láni á síðuna. Þær gefa síðunni lit og glæða hana lífi - við erum ákaflega þakklát fyrir lánið.

 

Allt efni, ábendingar og helst af öllu LJÓSMYNDIR eru vel þegnar frá öllum sem eitthvað eiga og vilja leyfa okkur að nota. Endilega hafið samband í gegnum vefform (sjá í valmyndinni til vinstri).

 

 

27.06.2008 - 17:43

Hornvík í Júní 2008

Borgný fylgist međ ferđum refa í kvöldsólinni
Borgný fylgist međ ferđum refa í kvöldsólinni
« 1 af 2 »
Ester Rut Unnsteinsdóttir og Borgný Katrínardóttir, nemandi í líffræði við Háskóla Íslands, fóru í vikuferð til Hornvíkur nú í júní. Þetta var fyrsti hluti athugunar á atferli refa við greni með áherslu á viðbrögðum við umferð ferðamanna inn á yfirráðasvæði refanna. Borgný vaktaði grenið sem valið var til verkefnisins og mun svo koma aftur í júlí og ágúst til að bera saman hegðun dýranna á þessum tímabilum. Um er að ræða nýsköpunarverkefni sem Melrakkasetur Íslands tekur þátt í ásamt Rannsókna- og fræðasetri Háskóla Íslands, Bolungarvík og Fræðasetri HÍ á Húsavík og Selasetri Íslands, Hvammstanga.
Hér er um að ræða undirbúningsrannsókn til að meta með hvaða hætti hægt er að mæla áhrif ferðamanna á villt dýralíf (refi, hvali, seli). Verður spennandi að fylgjast með niðurstöðum þessarar athugunar. Ester notaði vikuna til að kanna fjölda grenja í ábúð og stærð yfirráðasvæða (óðala) í bjarginu. Munu þau gögn nýtast í skýrslu sem unnin verður úr gögnum sem safnað hefur verið á vegum Náttúrustofu Vestfjarða í Bolungarvík og Háskóla Íslands.

Farið var með hraðbátnum Ingólfi á vegum Sjóferða Hafsteins og Kiddýar og var ferðin samnýtt af Jóni Björnssyni, nýráðnum forstöðumanni Hornstrandastofu sem setti upp "skrifstofuaðstöðu" í Höfn í Hornvík.

Einnig var með í för franska sjónvarpskonan Cecilie Xavier ásamt kvikmyndatökumanni en þau hafa verið á ferð um landið til að vinna efni í þáttaröðina "Guardians of Nature" sem sýnd er í franska sjónvarpinu. Þau höfðu m.a. heimsótt hreindýraslóðir á Austurlandi og Látrabjarg en voru sammála því að hápunktur ferðarinnar væri að fá að fylgjast með refarannsóknunum á Hornströndum, þó ekki væri á neinn annan hlut ferðarinnar hallað.
Vefumsjón