12.08.2008 - 10:31

Fleiri myndir

Melrakkasetrinu hafa borist fleiri fallegar refamyndir frá Michel Detay frá Frakklandi en hann hefur verið á ferð um Ísland í sumar ásamt konu sinni Ann Marie. Þau eru að skrifa bók um undur náttúru Íslands og hafa farið víðar en margur íslendingurinn á sínum fjallabíl. Myndirnar hans Michel eru flestar teknar á Hornströndum en hann náði einnig að mynda tófu á Snæfellsnesi.

Ágúst Atlason, ljósmyndari á Ísafirði, sendi einnig mynd af yrðlingi af hvítu litar-afbrigði sem hann sá í garði á Drangsnesi í vor. Þar eru víst yrðlingar á vappi sem leika við börnin á svæðinu og njóta mikilla vinsælda.

Við erum þakklát þeim Ágústi og Michel fyrir myndirnar en minnum á að ef ætlunin er að fá myndirnar að láni þarf að geta höfundar og hvaðan myndirnar eru teknar.

13.07.2008 - 17:42

Hornvík - önnur ferđ

Nú hefst önnur lota athugana á refunum í Hornvík og áhrifum ferðamanna á hegðun þeirra. Gert er ráð fyrir að nú sé umferð ferðamanna á svæðinu í hámarki og verður atferli refanna núna borið saman við það hvernig þeir brugðust við mannaferðum í júní síðastliðinn. Þá var fjöldi para svipaður og hefur verið undanfarin sumur en flest dýrin nokkuð vör um sig eins og oft er þegar fyrstu mannaferða verður vart á vorin, sérstaklega grenlæðurnar. Það er næsta víst að einhverjar tófur hafi vingast við ferðamenn sumarsins eins og áður. Við fylgjumst spennt með fyrstu niðurstöðum athugunarinnar og vonumst til að finna marktækan mælikvarða á atferli dýranna, sem hægt verður að bera saman milli tímabila.

Vefumsjón