13.11.2009 - 09:39

Stefnumótun

Melrakkafundur
Melrakkafundur
Melrakkasetrið er þessa dagana að vinna í stefnumótun fyrirtækisins, þar sem mótuð er framtíðarsýn og skilgreindar leiðir til að ná settu marki. Unnið er eftir nokkrum kerfum (m.a. SVÓT greining) með hliðsjón af styrkleikum, veikleikum, ógnum og tækifærum. Vinnan er leidd af Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða (atvest).

Talið er mikilvægt að móta stefnu fyrirtækisins á þessum tímapunkti þar sem starfið fram að þessu hefur einungis verið á undirbúningsstigi, en nú er framundan fyrsta sumarið þar sem sýningin er opin og því margt sem þarf að taka til endurskoðunar frá þeirri áætlun sem hingað til hefur verið unnið út frá, en hún var gerð haustið 2007.

11.11.2009 - 10:43

Fleiri myndir af refum

« 1 af 3 »
Kjartan Sigurðsson, ljósmyndari og leiðsögumaður, sendi okkur nokkrar myndir sem hann tók af yrðlingum við greni á hálendinu. Það er magnað að sjá hvað rebbarnir voru spakir og hvað fólk kom nálægt þeim til að mynda. Ekki fylgdi sögunni hvar foreldrar yrðlinganna héldu sig en ekki er ólíklegt að móðirin hafi fylgst með úr fjarlægð og beðið eftir að fólkið færi í burtu. Allir yrðlingarnir á myndinni eru af hvíta litarafbrigðinu sem þýðir að foreldrarnir eru líklega einnig hvítir. Fleiri myndir frá Kjartani eru á myndasíðu okkar, smellið á "Myndasafn" hér til hliðar.
Heimasíða Kjartans er www.photo.is
Vefumsjón