09.06.2017 - 12:41

7 įra afmęli Melrakkaseturs

Frį opnunarhįtišinni įriš 2010
Frį opnunarhįtišinni įriš 2010
« 1 af 5 »
Laugardaginn 10.júní bjóðum við ykkur að fagna með okkur 7 ára afmæli Melrakkasetursins.

Þetta verður frábær skemmtun fyrir alla fjölskylduna. Við munum bjóða uppá kökur, kaffi, gos og sykursætan candyfloss.
Á dagskrá er andlitsmálun, dorgveiðikeppni með tilheyrandi verðlaunum og fleiri skemmtilegir leikir fyrir börnin.
Frítt verður inn á safnið. 


Dagskráin
14:00 Veislan byrjar. Kökur, kaffi, gos og djús í boði fyrir alla sem mæta. Andlitsmálun fyrir börnin.
15:00-16:00 Dorgveiðikeppnin og leikir. Verðlaun fyrir stærsta fiskinn, minnsta fiskinn og fyrir flesta veidda fiska.

Hlökkum til að njóta sumarsins með ykkur og sjáumst hress
13.05.2017 - 17:33

Kjartan Geir Karlsson - Minning

Kjartan Geir og Gušjón Arnar opna Melrakkasetriš. Mynd: Žóršur Siguršsson
Kjartan Geir og Gušjón Arnar opna Melrakkasetriš. Mynd: Žóršur Siguršsson
« 1 af 3 »

Látinn er Kjartan Geir Karlsson, góður vinur og bakhjarl Melrakkasetursins. Kjartan Geir var annálaður veiðimaður og sá lengi um grenjavinnslu fyrir Súðavíkurhrepp ásamt því að stunda hrefnuveiðar. Kjartani var veiðimennskan í blóð borin enda hefur hann sjálfsagt á sínum tíma lært sitt af hverju hjá afa sínum, sjálfum Hrefnu-Láka.

Þegar við vorum að undirbúa opnun Melrakkasetursins kom ekki annað til greina en að leita til Kjartans Geirs. Honum þótti þetta nú heldur betur vitleysa til að byrja með en féllst að lokum á að aðstoða við uppsetningu og hönnun veiðimannasýningarinnar. Til dæmis var hlaðið forláta skotbyrgi inni í Eyrardal, undir hans verkstjórn og í það fengum við að setja gærupoka sem Kjartan hafði sjálfur saumað sér og notað þegar hann lá á grenjum á árum áður. Hann var ekki mikið fyrir að tala um afrek sín og svaðilfarir sem hann hefur áreiðanlega lent í á veiðiferðum sínum til sjós og lands en maður skildi og vissi að þarna fór maður með mikla reynslu og þekkingu á náttúru og dýralífi landsins. Þegar Melrakkasetrið opnaði þann 12. júní 2010 var það Kjartan Geir, ásamt Guðjóni Arnari Kristinssyni þingmanni, sem klippti á borðann.

Fyrsta sumarið sem Melrakkasetrið var opið áskotnaðist okkur agnarsmár yrðlingur sem Kjartan tók að sér að halda á lífi meðan hann var of lítill til að geta étið almennilega fasta fæðu. Kjartan kunni tökin á þeim stutta sem braggaðist fljótt og flutti síðan inn í gerði sem Þórir, maðurinn minn smíðaði handa honum. Yrðlingurinn varð mjög spakur og fallegur og var hann alltaf kallaður Frosti. Vinsældir hans náðu langt út fyrir landsteinanna. Kjartan hjálpaði einnig til við að halda ungum yrðlingum á lífi eftir daga Frosta. Hann var ávallt til í spjall um dýrin og náttúruna og maður kom ekki að tómum kofanum í þeirri umræðu. Síðast þegar ég fór í kaffi til Kjartans var Salla heitin á spítalanum. Við sátum dágóða stund yfir kaffi, ristabrauði og ýmsu góðgæti sem hann tíndi til. Ekki grunaði mig þá að ég ætti ekki eftir að sjá hann aftur, mér þykir afar vænt um þessa morgunstund.

Það eiga margir sárt að binda vegna fráfalls Kjartans Geirs og mikill missir af þeim heiðurshjónum, honum og Söllu, sem lést fyrr í vetur. Ég votta aðstandendum hans mína innilegustu samúð.

Fyrir hönd stjórnar og aðstandenda Melrakkaseturs Íslands

Ester Rut Unnsteinsdóttir
Vefumsjón