31.07.2010 - 20:47

þúsundasti gesturinn !

Harpa Dís með miða númer 1000
Harpa Dís með miða númer 1000
« 1 af 3 »
Nú hafa sannarlega margir heimsótt Melrakkasetrið það sem af er sumri en þúsundasti gesturinn kom í heimsókn í dag. Það er hún Harpa Dís Hákonardóttir, sem kom ásamt foreldrum sínum og litla bróður og fengu þau miða númer 999 og 1000 en frítt er á sýninguna fyrir börn í fylgd fullorðinna. Harpa Dís fékk að eiga miðann og tókum við þessa mynd af henni með miða númer 1000 í barminum.
Gestir okkar hafa sannarlega fengið að prófa hversu notalegt er að sitja á pallinum með rebbaköku eða annað gómsæti úr Rebbakaffi. Sólin skín og allt er eins og blómstrið eina hér í Eyrarsal.
Mætti stundum kalla Melrakkasetrið „fjölmenningarhús" þegar fólk frá ólíkum þjóðernum kemur við á sama tíma. Viðtökurnar eru frábærar og margar góðar setningar í gestabókinni, til dæmis: „Highlights of the Westfjords" og „Keep on with this great project". Í ferðahandbókinni Lonely Planet eru Melrakkasetrinu gerð góð skil og hafa margir sagt okkur að einmitt þar hafi þeir frétt af setrinu og þessvegna langað að sjá með eigin augum.
Meðal annara góðra gesta eru Eggert og Michelle, sem reka ferðaþjónustufyrirtækið Iceland Tour Guy. Þau kíktu við á helginni og að sjálfsögðu fékk Michelle sér melrakkabol, sem nú er orðin ein vinsælasta flíkin í dag .
Frosti unir sér vel í gerðinu sínu og hefur nú komist á sérstakan fóðursamning hjá fyrirtækinu Murr í Súðavík en þar er framleitt hágæða katta og smáhundafóður úr íslensku hráefni.
Við kveðjum með söknuði og eftirsjá tvö af sumarstarfsmönnunum okkar, þau Fanney og Hjörleif en þau hafa staðið vaktina í sumar ásamt Rúnu og Ingu Völu og Fjólu sem nú hefur bæst í fastaliðið. Fanney og Hjörlefur halda áfram sambandi við okkur á setrinu og aldrei að vita nema þau komi og vinni með okkur aftur næsta sumar.
Vefumsjón