25.04.2008 - 09:25

Atferli refa

Nú í sumar mun fara af stað undirbúningsrannsókn á áhrifum ferðamanna á atferli refa á Hornströndum. Verkefnið er í umsjón Rannsókna- og fræðaseturs Háskóla Íslands í Bolungarvík en Melrakkasetur Íslands tekur einnig þátt í verkefninu. Um er að ræða einn þátt í samstarfsverkefni með Selasetri Íslands (áhrif ferðamanna á atferli sela) og Rannsóknarsetri HÍ á Húsavík og Hvalamiðstöðinni á Húsavík (áhrif ferðamanna á atferli hvala). Þetta er ansi viðamikið verkefni og verður spennandi að sjá hverjar niðurstöðurnar verða.

Ráðinn verður einn háskólanemi fyrir hvern þátt verkefnisins og verður það Borgný Katrínardóttir, nemandi á þriðja ári í líffræði við Háskóla Íslands, sem kemur til með að fylgjast með atferli refanna á Hornströndum í sumar.

Þar sem ferðamannatíminn á Hornströndum er afar stuttur en einmitt á sama tíma og refirnir á svæðinu (ásamt öðrum dýrategundum) eru að koma upp afkvæmum sínum, er áhugavert að skoða hvort og þá hvaða áhrif umferð ferðamanna hefur á hegðun dýranna. Vitað er að sumir refir á Hornströndum verða mjög spakir og sníkja mat af ferðamönnum en ekki er alveg ljóst hvort þetta eru stök dýr eða hvort þessi dýr eru með yrðlinga á greni. Einnig verður athyglisvert að skoða hversu mikinn mat refirnir fá frá ferðamönnunum og hvort sú viðbótarfæða skiptir þá einhverju máli. Umsjón með verkefninu hefur Ester Rut Unnsteinsdóttir.

04.04.2008 - 17:22

Ljsmyndir

Samið hefur verið við nokkra atvinnuljósmyndara um að fá að nota myndir þeirra, af íslenskum refum, á myndasíðu Melrakkasetursins. Þekktastur íslenskra ljósmyndara er Daníel Bergmann en hann hefur tekið nokkrar af bestu refamyndum sem við höfum séð. Það er fengur fyrir setrið að fá afnot af þessum glæsilegu myndum og erum við afar þakklát fyrir lánið.

Vefumsjn