05.06.2008 - 21:51

Um melrakkann

Samið hefur verið við Hólmfríði Sigþórsdóttur líffræðing um að setja saman texta um melrakka á heimasíðuna. Hólmfríður þekkir refina vel enda dvaldi hún í Hlöðuvík á Hornströndum sumarið 1998 við rannsóknir á refum á vegum Háskóla Íslands.


Til er bókin REFIRNIR Á HORNSTRÖNDUM sem fjallar að hluta til um dvölina í Hlöðuvík. Bókin er skemmtileg aflestrar og prýdd fallegum myndum.


Efnið um melrakkann er að mestu fengið frá Páli Hersteinssyni en hann hefur stundað rannsóknir á tófunni frá áttunda áratug s.l. aldar og eftir hann liggur mikið efni, ýmist í bókum og lærðum greinum. Allt efni sem birt verður á heimasíðu og sýningu Melrakkaseturs Íslands verður yfirfarið af Páli, sem er mikil gæðavottun að mati aðstandenda setursins.


Menningarráð Vestfjarða veitti styrk til verkefnisins.

 

26.05.2008 - 21:43

LOGO

Á dögunum fór fram samkeppni um hönnun á einkennismerki Melrakkasetursins. Keppnin var auglýst í Fréttablaðinu og bárust tillögur frá fólki víða um landið. Sumar tillögurnar voru faglega unnar og greinilegt að metnaður lá þar að baki. Nokkrum tillögum fylgdi skýringartexti til að lýsa hugmyndinni bakvið tillöguna. Það var erfitt verkefni fyrir stjórn setursins að velja eit merki úr og tóku menn sér nokkurn umhugsunarfrest, saman og í sitthvoru lagi. Loks voru þrjú merki eftir og var endanleg ákvörðun tekin í kjölfar leynilegrar kosningar innan hópsins.

Merkið sem varð fyrir valinu hefur tilvísun í heimabæ Melrakkasetursins þar sem fjallið Kofri myndar bakgrunn og höfuð tófunnar trónar þar yfir. Merkið gefur möguleika á útfærslum og verður unnið nokkuð með það en sú vinna verður í höndum höfundarins, Kára Jarls Kristinssonar sem búsettur er á Seltjarnarnesi.

 

 

 

 

Vefumsjn