15.12.2008 - 21:05

Wild North

The Wild North (Hið villta norður) er alþjóðlegt samstarfsverkefni um sjálfbæra þróun náttúrulífsferðamennsku (e. wild life tourism). Verkefnið varð til hjá Selasetri Íslands og fer Hrafnhildur Ýr Víglundsdóttir framkvæmdastjóri þess með verkefnisstjórn. Leiðandi þátttakandi er Fræðasetur Háskóla Íslands á Húsavík.

Melrakkasetur Íslands varð nýlega þátttakandi í Wild North en hlutverk og áætlanir setursins falla að öllu leyti undir markmið Wild North - þ.e. að blanda saman rannsóknum og ferðamennsku með villt dýralíf að leiðarlósi. Með sjálfbærri nýtingu þeirrar auðlindar sem felst í að sýna ferðamönnum villt dýr í náttúrulegu umhverfi, fæst hámarks nýting án þess að gengið sé á auðlindina. Með þetta í huga leiðarljósi ætlar Melrakkasetur Íslands að taka fullan þátt í því þróunarstarfi sem þátttaka Wild North felur í sér.

Dagana 9. og 10. desember síðastliðinn komu samstarfsaðilar verkefnisins saman á Húsavík til að ræða framkvæmd þess og fjármögnun. Markmið fundarins var að vinna í aðgerðaráætlun næstu þriggja ára og hefja vinnu að umsóknum fyrir alþjóðlega sjóði líkt og Norðurslóðaáætlun Evrópusambandsins og NORA (Norræna Atlantsnefndin).

Ester Rut Unnsteinsdóttir sótti fundinn fyrir hönd Melrakkaseturs Íslands og Íris Hrund Halldórsdóttir frá Rannsókna- og fræðasetri Háskóla Íslands á Vestfjörðum var einnig með í för.

Wild North hlaut árið 2007 undirbúningsstyrk frá NORA (Norrænu Atlantsnefndinni) auk þess sem Grænlandssjóður og NATA (North Atlantic Tourist Association) styrktu ferðir til að leita að samstarfsaðilum í Færeyjum og á Grænlandi.

Samstarfsaðilar verkefnisins eru frá Íslandi, Noregi, Grænlandi og Færeyjum. Má þar m.a. nefna Ferðamála- og viðskiparáð Grænlands (GTBC), Ferðamálaráð Færeyja (Samvit) og Norsku náttúrufræðistofnunina (NINA). Wild North stuðlar að nýrri hugsun, þar sem samvinna og sjálfbærni eru lykilatriði. Verkefnið skapar einnig tækifæri fyrir Íslendinga að vera leiðandi á sviði sjálfbærrar náttúrulífsferðamennsku á Norðurslóðum. Heimasíða verkefnisins er www.thewildnorth.org.
Vefumsjón