09.12.2010 - 16:52

Viđ kveikjum ţremur kertum á !

á markađsloftinu sl. sunnudag. Mynd: Ţórđur Sigurđsson
á markađsloftinu sl. sunnudag. Mynd: Ţórđur Sigurđsson
« 1 af 4 »
Jólin hafa ekki verið haldin hátíðleg í Eyrardalsbænum í hartnær fjörutíu ár en nú ríkir þar sannkölluð jólastemning.

Fyrstu tvo sunnudagana í aðventu, þ.e.  28. nóvember og 5. desember, höfum við haldið hátíðlega með jólastemningu, jólatónlist, skreytingum og jólamarkaði og tókst það vel upp. Næstu tveir sunnudagar verða vonandi jafn vel heppnaðir enda er fólk á norðanverðum Vestfjörðum búið að uppgötva hversu dásamlegt það er að fá sér sunnudagsbíltúr og skoða hvað er um að vera hér og hvar - Súðavík er einmitt góður endi á slíkum bíltúr og gaman að sjá hvað fólki líður vel hér í húsinu.

Á markaðnum koma ýmsir aðilar til að selja vörur sínar, það kostar ekkert að koma og selja og allir fá pláss meðan húsrúm leyfir. Athugið að einungis fáir söluaðilar taka við kortum, munið því að fara í hraðbankann og mæta með pening - þannig getið þið gert góð kaup !

Dagskráin um helgina 10. - 12. desember ...

Föstudagur:

Á föstudagskvöldið 10. desember ætla heimamenn að setjast niður með úrval jólabjórs og smakka aðeins á honum til að geta tekið upplýsta ákvörðun um jólabjórinn í ár. Opið verður frá 20-23 og kostar hver flaska eða dós aðeins 600kr.


Laugardagur:

Næsta laugardag, 11. desember kl. 14 fer fram seinni úthlutun styrkja Menningarráðs Vestfjarða fyrir árið 2010. Melrakkasetrið hefur frá upphafi notið stuðnings frá Menningarráðinu og við tökum fagnandi á móti þessum hópi með heitt á könnunni og nýbökuðu bakkelsi. Athöfnin er öllum opin og við hvetjum alla til að kíkja við og kynna sér hvernig menningin blómstrar hér fyrir vestan.


Sunnudagur:

Næsta sunnudag, þann 12. desember eigum við von á þjóðbúningafélaginu með sín frábæru dagatöl, Björgunarsveitin Kofri selur jólakort, jólapappír, jólaservéttur og jólakerti á frábæru verði, Handverksfélagið Krían selur ýmsa handavinnu, María og Sveinbjörn selja glæsilega listmuni og handverk. Nú verður líka seldur ekta vestfirskur harðfiskur, framleiddur í Súðavík. Nýir diskar með þjóðsögum af Hornströndum og Jökulfjörðum og slökunardiskar Lilju og Hauks eru til sölu á spottprís - nú hefur bara verið talið upp brot af því sem þarna er að fá, sjón er sögu ríkari...  


Skundi litli ætlar að kíkja við og spilar góða tónlist og það verður heitt á könnunni ...  börnin fá að lita jólamyndir meðan mamma og pabbi spjalla um jólaundirbúninginn...


 

Verið velkomin í Eyrardal á sunnudaginn - opið frá 14 - 18


Við kveikjum þremur kertum á 
því konungs beðið er,
þótt Jesús sjálfur jötu og strá
á jólum kysi sér.

Vefumsjón