07.07.2017 - 10:58

Vettvangsferđ í Hornvík

Hópurinn uppi í Almenningaskarđi, Innstidalur og bjargiđ í baksýn (Chantal Rodrigue)
Hópurinn uppi í Almenningaskarđi, Innstidalur og bjargiđ í baksýn (Chantal Rodrigue)
« 1 af 4 »

Markmið: Könnun á ástandi refa í Hornvík, fjölda grenja í ábúð og frjósemi dýra. Vöktun við greni til að meta ágang ferðamanna og viðbrögð dýra við umferð fólks við greni í ábúð.

Þátttakendur: Ingvi Stígsson (umsjón), Chantal Rodrigue (CA), Emma Hodson (UK), Justin Roy (CA), Daniel Rodriguez (US), Jedd Pettit (CA) og Juliann Schamel (US).

Siglt var með Bjarnarnesi, ferju Borea Adventures, frá Ísafirði að morgni 20. júní. Farið var í land að Horni og með í för voru tveir kvikmyndatökumenn frá Maramedia í Bretlandi en þeir vinna að heimildamynd um íslenska náttúru fyrir japanska sjónvarpsstöð. Í Hornvík var dvalið í eina viku.

Farið var á öll þekkt greni í Hornbjargi og við Hornvíkurósinn og athugað með ábúð í þeim, alls voru sjö þeirra mjög líklega í ábúð en staðfest voru sex greni með yrðlinga. Einnig var nokkuð af hlaupadýrum, m.a. við húsin að Horni. Fjaran var mikið notuð, bæði af hlaupadýrum og grendýrum. Mikið líf í víkinni og eggjaskurn algeng sjón á bjargbrún – sem bendir til þess að varp hafi verið með betra móti í bjarginu. Agnarlítill yrðlingur, sem ferðafólk hafði fundið við húsin og afhent hópnum okkar, drapst innan sólarhrings, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að halda á honum hita og reyna að koma í hann fæðu. Aðrir yrðlingar sem sáust virtust nokkuð sprækir og vel haldnir enda nóg af fæðu.

Veðrið var votviðrasamt fyrrihluta vikunnar en svo létti til og Hornvíkin skartaði sínu fegursta síðustu dagana, ekki síst í kvöldsólinni.

Valin voru þrjú greni til að fylgjast sérstaklega með m.t.t. samskipta við ferðamenn og afkomu yrðlinga. Þau greni voru vöktuð í 12 klst á dag í fimm daga. Gert er ráð fyrir að í júní séu dýrin ekki vön ferðamönnum og að læður með yrðlinga séu varnarlausar og algerlega bundnar við greni. Jafnframt því að fylgst var með grenjum var athugað með landamæri óðala og landnotkun hvers óðalspars og ferðir fullorðinna dýra bæði innan óðala og utan.

Kom í ljós að flest pörin voru með stór got, allt að níu yrðlinga. Eitt parið hafði falið afkvæmi sín afar vel og var ógerlegt að fylgjast með þeim svo athugendur fluttu sig á annað greni þar sem meira var að gerast. Litafar dýranna í Hornvík var svipað og á síðasta ári, langflest dýrin mórauð og afkvæmin líka en ein hvít grenlæða var með níu yrðlinga, þar af einn mórauðan. Faðirinn sást hinsvegar ekki en í fyrra var þessi læða með hvítum stegg og átti með honum níu hvíta yrðlinga. Hvíti liturinn er víkjandi fyrir hinum mórauða og því getur hvítt par aðeins eignast hvíta yrðlinga. Mórauð dýr geta verið með erfðaefni fyrir hvítum lit þó hann komi ekki fram. Það skal ekki útilokað að tveir steggir hafi makast með læðunni í þann stutta tíma sem hún var móttækileg í mars og báðir feðrað gotið hennar. Því miður gafst ekki tækifæri til að vera á staðnum á þeim tíma til að fylgjast með pöruninni í ár.

Reynslan hefur sýnt okkur að karldýrin geta verið meira á varðbergi vegna ágangs ferðafólks á þessu svæði enda hafa þeir meira svigrúm til að halda sig fjarri ef þeir verða fyrir truflun. Mæðurnar, hinsvegar, eru bundnar við að heimsækja grenið til að gefa yrðlingunum mjólk og sinna þeim. Þetta er því erfiður tími fyrir fjölskylduna og mest mæðir á móðurinni. Þessi læða var með bólginn mjólkurkirtil sem hefur áreiðanlega verið afar óþægilegt og jafnvel sársaukafullt. Hún bar merki þess að vera útkeyrð og í lakara ásigkomulagi en áður, til dæmis var hún ekki að fullu búin að losa sig við vetrarfeldinn. Vonandi rætist úr hjá henni en saga hennar mun verða sögð í tveimur heimildamyndum sem framleiddar verða þetta sumarið.

Lífið er ekki alltaf auðvelt á hjara veraldar og ekki víst að yrðlingarnir muni allir lifa til haustsins. Venjan er að 4-5 yrðlingar lifi sumarið hjá hverju pari og sumarið í ár ætti ekki að skera sig úr hvað þetta varðar. Lífsbaráttan er hörð hjá villtum dýrum á norðurslóðum og aðeins sterkustu og útsjónarsömustu dýrin lifa af. Það er ekki hægt annað en að heillast af dugnaði og eljusemi þessara dýra sem hafa lifað af við hörðustu heimskautaveður. Nú er sumar og nóg af æti handa hratt vaxandi ungviðinu sem bara leika sér í áhyggjuleysi æskunnar.

Við þökkum sjálfboðaliðunum okkar kærlega fyrir að koma og taka að sér vöktun á refunum þessa viku í Hornvík. Án þeirra hefði ekki verið hægt að fylgjast svo náið með lífsháttum þeirra á svo skömmum tíma og með svo litlum tilkostnaði.

Einnig viljum við færa landeigendum að Horni bestu þakkir fyrir afnot að landi þeirra og húsi meðan á dvölinni stóð. 

Vefumsjón