01.02.2011 - 13:44

Vetrarstarf

Frosti fćr frelsiđ, 5. nóv
Frosti fćr frelsiđ, 5. nóv
Nóg er að gera á Melrakkasetrinu þrátt fyrir vetrarfrí enda er þetta sá tími sem nota þarf til að undirbúa sumarið og þau verkefni sem stendur til að fara í þetta árið. Nýlokið er krufningum á þeim dýrum sem veiðimenn af Vestfjörðum hafa sent okkur. Krufin voru 45 dýr og verður viðkomandi aðilum sent bréf með niðurstöðum krufninganna um leið og aldursgreining liggur fyrir. Við þökkum þeim sem tóku þátt og sérstaklega þeim sem gengu vel frá dýrunum og skiluðu skilmerkilegri skýrslu en því fleiri upplýsingar sem fylgja með, því nákvæmari eru niðurstöðurnar. Guðmundur og Ragnar Jakobssynir lánuðu aðstöðu sína í Bolungarvík fyrir verkið og voru starfsmenn Náttúrustofu Vestfjarða til aðstoðar. 

Við höfum fengið nokkra gesti það sem af er árinu og hafa þeir þurft að sýna nokkurt umburðarlyndi gagnvart ástandinu þar sem verið er að vinna í endurbótum á húsnæðinu þessa dagana. Um síðustu helgi kom heil rúta af félögum í Oddfellow reglunni í heimsókn en þau voru í „óvissuferð" um svæðið. Það var gaman að hitta þetta fólk en margir hverjir höfðu aldrei komið í setrið og voru menn almennt ánægðir með hversu húsið og sýningin er vel heppnað. Líklega hafa aldrei verið eins margir samankomnir í litla kaffihúsinu okkar en þær Inga Vala og Lilja Kjartans stóðu sig með prýði og báru fram léttar veitingar meðan Skundi litli spilaði og söng. Þorsteinn hjá Muurrikka kom með sýnishorn af reyktum krækling úr djúpinu og þótti mikið sælgæti. Okkur dreymir um að geta boðið upp á slíkt fínerí næsta sumar og þá er reykofninn frá Muurikka einmitt græjan sem þarf.

Við erum að skipuleggja sjálfboðaliðastarfið í sumar enda mikil ásókn í að koma og vinna hjá okkur í sjálfboðaverkefnum - þökk sé Lonely Planet bókinni nýjustu þar sem farið er fögrum orðum um setrið okkar og svæðið allt. Von er á fjölda ferðamanna sem koma gagngert vegna þess að mælt er með Vestfjörðum í bókinni, við höfum strax orðið vör við það.

Fyrstu fjórir sjálfboðaliðarnir hafa verið bókaðir í verkefni sem kallast: "Hvar er Frosti" en þau eiga að finna Frosta og staðsetja hann og sjá hvort hann sé til í að taka þátt í vetrarljósmyndaverkefnunum okkar þetta árið. Við áætlum að hafa opið samkvæmt samkomulagi áfram í vetur og reglulega opnun aftur í vor. Því er um að gera að hafa samband ef verið er að skipuleggja ferðir eða annað slíkt. Að öllum líkindum verður einhver uppákoma í kringum páskavikuna og verður sagt frá því hér á síðunni þegar þar að kemur.

Næstu helgi tekur Melrakkasetrið þátt í ráðstefnunni Án áfangastaðar - Without destination, sem fer fram í Listasafni Reykjavíkur. Melrakkasetrið fer þar ásamt öðrum félögum í The Wild North en fyrirlestrar verða undir formerkjunum: Practicing Nature Based Tourism. Ráðstefnan öllum opin, sjá nánar á http://www.listasafnreykjavikur.is/desktopdefault.aspx/tabid-2182/3368_read-1723/date-1625/#radstefna 
Vefumsjón