13.01.2015 - 11:00

Vetrarfćđa melrakka

Jónas Gunnlaugsson rýnir í magainnihald
Jónas Gunnlaugsson rýnir í magainnihald
« 1 af 2 »
Nýlega var lokið við verkefnið: Hvað eru refirnir að éta? sem fjallar um vetrarfæðu melrakka á Íslandi.
Skýrsla um verkefnið er hér á vefnum undir Verkefni-rannsóknir

Hér er stutt samantekt á skýrslunni:

Melrakkinn (Vulpes lagopus) er hánorræn tegund og finnst allt umhverfis norður heimskautið (sirkumpólar). Melrakkar hafa aðlagast loftslagi og fæðuframboði norðurhjarans með ýmsu móti en þeirra helsta fæða á túndrunni eru læmingjar, en þeir eru nagdýr sem sveiflast með reglubundnum hætti og eru stofnar þeirra í hámarki á 3-4 ára fresti. Útbreiðsla melrakkans hefur dregist verulega saman á síðastliðinni öld og tófum hefur fækkað svo mikið á Norðurlöndunum að tegundin er þar í alvarlegri útrýmingarhættu þrátt fyrir algera friðun í yfir 80 ár (P. Hersteinsson o.fl. 1989). Talið er að óbein áhrif hlýnandi veðurfars á norðurslóðum séu megin ástæða fyrir vandræðum tegundarinnar í Skandinavíu og víðar.
Á Íslandi hefur hlýnandi veðurfar undanfarna áratugi, hinsvegar, haft þveröfug áhrif enda fór íslenski refastofninn ört stækkandi frá því hann var fyrst metinn árið 1979. Reyndar var stofninn í algeru lágmarki á þeim tíma, um 1000 dýr, og hafði fækkunin staðið frá því um miðbik síðustu aldar en stofninn var áætlaður um 11.000 dýr árið 2007 (P. Hersteinsson 2010). Ástæða fjölgunarinnar upp úr 1980 var væntanlega betri afkoma samfara hlýnandi veðurfari sem bætti kjör margra fuglastofna og þar með fæðuskilyrði refa.

Takmarkandi þættir stofns á borð við tófuna eru einmitt fæða að vetrarlagi en hún skiptir höfuðmáli fyrir lífslíkur og frjósemi læðna (A. Angerbjörn o.fl. 1991). Að þessu gefnu var talið mikilvægt að skoða fæðu refa á Íslandi, sérstaklega að vetrarlagi og hlaut verkefnið til þess styrk frá Veiðikortasjóði árið 2013. Nú er verkefninu lokið og hér er sagt frá helstu niðurstöðum rannsóknarinnar.

 

Greint var fæðuval refa með athugun á innihaldi maga sem safnað hafði verið við krufningar á innsendum refahræjum frá veiðimönnum og teknir úr refum sem veiddir voru að vetrarlagi. Notast var við sömu aðferðir og beitt var í rannsókn Hálfdáns H. Helgasonar (2008). Greining, úrvinnsla og skrif fóru fram í húsnæði Náttúrustofu Vestfjarða í Bolungarvík. Jónas Gunnlaugsson, náttúrufræðingur og starfsmaður Melrakkaseturs, sá um greininguna að fenginni ráðgjöf og þjálfun hjá starfsmönnum Náttúrustofu Vestfjarða og Ester Rut Unnsteinsdóttur, umsjónarmanni verkefnisins. Þorvaldur Guðmundsson, hamskeri hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, aðstoðaði jafnframt og gaf ráð við greininguna.

 

Í úrvinnslu gagna um vistfræði refa hefur Íslandi gjarnan verið skipt upp í tvo hluta, austursvæði og vestursvæði en þessir tveir landshlutar eru taldir endurspegla tvö megin búsvæði refa, strand- og innanlands-búsvæði (P. Hersteinsson 1992; A. Angerbjörn o.fl. 1994; P. Hersteinsson & D. Macdonald 1996). Á vestanverðu landinu er að finna langtum hærra hlutfall gjöfullar strandlengju en norður-, austur- og suðurland samanlagt (A. Ingólfsson 1975). Þar sem refum er skilað inn til sveitafélaga og veiðigögn skráð eftir þeim er línan milli austur og vesturhluta dregin samkvæmt skiptingu hreppa (P. Hersteinsson 1992). Hér var því gerður samanburður á magainnihaldi refa sem veiddir voru af vestanverðu og austanverðu landinu.

Aðferðum við greininguna er lýst í skýrslunni en innihaldi maga var skipt niður í eftirfarandi flokka: fuglar, egg, spendýr, fiskar, hryggleysingjar, plöntur og annað/ógreint.  Fuglar voru frekar greindir sem landfuglar og sjófuglar. Spendýr voru frekar greind sem stærri spendýr og nagdýr.

 

Helstu niðurstöður voru þær að fiskar og egg fundust eingöngu í mögum af vesturlandi. Eggin voru væntanlega forði frá vorinu áður og líklega úr fýl. Hagamýs fundust aðallega í mögum af vesturlandi. Svipað hlutfall fugla var í mögum af báðum landsvæðum en andfulgar og spörfuglar (saman >50%) voru algengari í mögum á austanverðu landinu. Svartfuglar fundust eingöngu í mögum af vestanverðu landinu (23%). Rjúpur voru lítið eitt algengari á austanverðu landinu (28%) en vestanvert (23%) en fýlar og máfar fundust frekar í mögum vestanlands (15%) en austan (9%).

Hryggleysingjar voru fyrirferðamiklir í mögum, sérstaklega á austanverðu landinu. Meðal þeirra sem fundust voru lirfur og púpur ertuyglu (Melanchra pisi) en þetta eru stórar lirfur og próteinríkar

 

Melrakkar víða erlendis búa við harða samkeppni við rauðref (Vulpes vulpes) um fæðu og búsvæði og margar tófur hafa sérhæft fæðuval og geta því ekki brugðist eins vel við breytingum í fæðuframboði og íslenska tófan. Sú þekking sem við fáum á vistfræði íslenska melrakkans er því mikilvæg í samanburði við tófur á öðrum svæðum þar sem fjölbreytt fæðuframboð getur átt sinn þátt í að viðhalda lífvænlegum stofni tegundar sem víðast hvar er á undanhaldi vegna samkeppni, ofveiða og ýmissa óbeinna afleiðinga loftslagsbreytinga (A. Angerbjörn o.fl. 1991; A. Angerbjörn og P. Hersteinsson 2004).

Samanburður við ólík búsvæði innanlands er mikilvægur og hefur t.d. leitt í ljós að í tófum sem búa við ströndina á Íslandi er talsvert magn kvikasilfurs (N. Boahcarova o.fl.). Þetta efni fá dýrin í sig úr fæðunni sem kemur úr sjónum, nefnilega sjávarspendýrum og fuglum. Ekki er vitað hvort og þá hvaða áhrif þessi mengun hefur á afkomu dýranna en lítið sem ekkert af kvikasilfri fannst í dýrum inn til landsins (austanvert landið). Bendir þetta til ólíkrar fæðu strand- og innanlandsrefa á Íslandi en brýnt er að fylgjast áfram vel með ástandi bæði fugla og refa hér á landi. Stofnbreytingar í tíma og rúmi endurspegla breytingar í vistkerfinu og samband bráðar og afræningja skiptir miklu máli í því samhengi.

Í þessu ljósi mætti svo skoða hvaða fæðuframboð dýrin búa við og hvort sé munur á framboði að vetri eftir landshlutum og jafnvel veðurfari. Upplýsingar sem fást úr slíkri athugun eru mikilvægar fyrir þekkingu á íslenska melrakkanum. Ekki síst þegar lagt er mat á mögulegar ástæður fjölgunar refastofnsins og hugsanlegar leiðir til að stemma stigu við henni.

 

Urriðaholt í desember 2014

Ester Rut Unnsteinsdóttir

Náttúrufræðistofnun Íslands

 

 

Heimildir

Agnar Ingólfsson, 1975. Lífríki fjörunnar. Í: Votlendi (ritstj. Arnþór Garðarsson), Rit Landverndar 4, Landvernd, Reykjavík. Bls. 61-99.


Anders Angerbjörn, B. Arvidson, E. Norén og L. Strömgren, 1991. The effect of winter food on reproduction in the arctic fox, Alopex lagopus: a field experiment. The Journal of Animal Ecology, 705-714.


Anders Angerbjörn, P. Hersteinsson og M. Tannerfeldt, 2004. Arctic foxes: Consequences of resource predictability in the Arctic fox – two life history strategies. In Biology and Conservation of Wild Canids.


Hálfdán H. Helgason, 2008. Fæða refa (Vulpes lagopus) á hálendi Íslands að vetrarlagi. Rannsóknarverkefni (3 ein). Líffræðiskor Háskóla Íslands.


Natalia Bocharova, G. Treu, G. Czirják, O. Krone, V. Stefanski, G. Wibbelt, E. Unnsteinsdottir, P. Hersteinsson, G. Schares, L. Doronina, M. Goltsman og A.D. Greenwood, 2013. Correlates between feeding ecology and mercury levels in historical and modern arctic foxes (Vulpes lagopus). PloS one, 8(5), e60879.


Páll Hersteinsson, 1998. Spendýr á norðurslóðum Í: Undur veraldar: Greinasafn um raunvísindi fyrir almenning (ritstj. Þorsteinn Vilhjálmsson. Heimskringla, Reykjavík. Bls. 89-106.


Páll Hersteinsson, 1992. Demography of the arctic fox (Alopex lagopus) population in Iceland. In Wildlife 2001: Populations. D. R. McCullough, and R.H. Barrett (ritstj.).  Elsevier, London. bls. 954-964.


Páll Hersteinsson, 2010. Tófan. Veiðidagbók Umhverfisstofnunar 2010.


Páll Hersteinsson, A. Angerbjörn, K. Frafjord og A. Kaikusalo, 1989. The arctic fox in Fennoscandia and Iceland: management problems. Biological Conservation, 49(1), 67-81.


Páll Hersteinsson og D.W. Macdonald, 1996. Diet of Arctic foxes (Alopex lagopus) in Iceland. J. Zool. Lond. 240:457-474.
Vefumsjón