14.11.2013 - 16:12

Tíuţúsundasti refurinn krufinn !

Kominn á borđiđ og búinn ađ fá númer
Kominn á borđiđ og búinn ađ fá númer
« 1 af 3 »

Mat á íslenska refastofninum hefur staðið yfir frá árinu 1979 þegar Páll Hersteinsson, þá í doktorsnámi, skrifaði refaskyttum bréf og bað þá um samstarf með því að senda sér kjálka úr felldum dýrum til aldursgreiningar. Árið 1985 hóf hann síðan að kryfja refi til frekari mælinga. Stofnmatið hefur staðið sleitulaust síðan og frá upphafi verið í höndum Páls heitins, sem lést þann 13. október 2011. Stórmerkilegum áfanga var náð í dag, 14. 11. 2013, þegar refahræ nr. 10.000 var krufið.
Um var að ræða hvítan stegg sem skotinn var í Árnessýslu þann 3. nóvember síðastliðinn. Dýrið vóg 3,9kg og var hann aðeins farinn að þykkna og hvítna á feldinn. Sá lágfætti var nokkuð dæmigerður fyrir kynbræður sína en heldur í léttari kantinum. Bakfita var lítil og líklegt að hann hafi enn verið að fita sig upp fyrir veturinn. Aldursgreining á dýrinu liggur ekki fyrir fyrr en í apríl á næsta ári en nú er verið að sjóða hausa til að ná úr tönnum fyrir aldursgreiningu á þeim dýrum sem send hafa verið inn í ár og fyrra.
Ester Rut Unnsteinsdóttir var ein viðstödd á þessum merku tímamótum og enginn sérstök viðhöfn í tilefni dagsins. Þó var farið að fletta í gömlum krufningagögnum og kom í ljós að refahræ nr. 1 var mórauður steggur sem skotinn var í Vestur Húnavatnssýslu þann 13. mars 1979. Lítið hefur verið sent inn af refahræjum til krufninga af því landssvæði undanfarið.  Sendandi dýrs nr. 10.000 fær glaðning frá Melrakkasetrinu af þessu tilefni. Allir hinir 9.999 refirnir eiga þó líka skilið þakkir fyrir þeirra framlag til þekkingar á íslenska refastofninum. Í dag eru yfir 10.000 refir á Íslandi að haustlagi, þá eru meðtaldir yrðlingar frá því um sumarið en þeir teljast með fullorðnum dýrum frá og með september. Stofninn hefur vaxið sleitulaust frá því í byrjun 1970 en þá var hann líklega í sögulegu lágmarki eða undir 1.000 dýr. 

Vefumsjón