12.06.2010 - 10:50

Til hamingju međ daginn Íslendingar!

Í dag kl. 12 opnar Melrakkasetur Íslands í Eyrardal í Súðavík !
Athöfnin hefst með því að Ómar Már Jónsson, sveitarstjóri Súðavíkurhrepps, afhendir Melrakkasetrinu húsið í Eyrardal með formlegum hætti. Sýnt verður atriði úr leikritinu Gaggað í grjótinu sem Kómedíuleikhúsið setur upp og verður leikritið sýnt á fimmtudagskvöldum í sumar. Að endingu verður sýningin sjálf formlega opnuð og er það Guðjón Arnar Kristjánsson sem sér um það. Húsið í Eyrardal er eitt af elstu húsum bæjarins og á sér talsvert merka sögu. Súðavíkurhreppur á húsið og hefur séð um endurbyggingu þess frá árinu 2005.

Melrakkasetrið er fræðasetur með áherslu á melrakkann, eina upprunalega landspendýrið á Íslandi og einkennisdýr Vestfjarða. Þar verður sýning um refi í náttúrunni, refaveiðar og refaveiðimenn. Einnig verður þar starfrækt kaffihús og leikhúsloft.

Á opnuninni verður boðið upp á kaffi og heimabakað góðgæti í boði heimamanna. Athöfninni lýkur kl. 15. Ókeypis er á sýninguna alla opnunarhelgina en hún verður opin alla daga í sumar frá kl. 10-18 og kaffihúsið til kl. 22.

 
Vefumsjón