11.06.2013 - 12:14

Takk fyrir okkur og gleđilegt rebbasumar

« 1 af 3 »
Afmælishátíð Melrakkaseturs Íslands í Súðavík fór fram í blíðskaparveðri sl. sunnudag. Opið hús var frá kl. 13-17 og boðið upp á afmælistertu frá Gamla Bakaríinu sem á hafði verið teiknaður refur úr súkkulaði. Einnig bauð Ölgerðin upp á gosdrykkinn Mix. Boðið var upp á andlitsmálun, hoppukastala og lifandi tónlist auk þess sem kvikmyndin One Scene var sýnd á loftinu. Áætlaður fjöldi gesta á afmælisdaginn var um 400 manns. Stjórn og starfsmenn Melrakkaseturs þakka kærlega fyrir daginn, þetta var frábært.

Samhliða afmælisveislunni var nýjum starfsmönnum fagnað sem og framkvæmdum á lóð og nágrenni setursins. Um þessar mundir er verið að tvöfalda útiaðstöðu við setrið, byggja bogabrú yfir Eyrardalsána, endurbæta refagirðingu og eldstæði verður byggt upp við enda pallsins. Þá eru einnig í gangi framkvæmdir á lóð og bílaplani.

Stólarnir frá Sólóhúsgögn eru komnir í Rebbakaffi og þykja einstaklega fallegir og þægilegir. Þeir sem vilja tryggja sér öruggt sæti á kaffihúsinu ættu að merkja sér einn slíkan, kostar aðeins 20.000,- kr.

Fyrsta ferðin á Hornstrandir er á miðvikudaginn 12. júní en þá er haldið til Hlöðuvíkur með fjölskyldu Páls heitins Hersteinssonar. Dvalið verður í Búðabæ þar sem rannsóknirnar hófust árið 1998 og sagt er frá í bókinni "Refirnir á Hornströndum". Á laugardag verður svo farið í Hornvík til að fylgjast með ferðamönnum og refum. Með Ester forstöðumanni verða Eric Maes frá Belgíu, Chloe Natar frá Sviss, Julien Joly frá Frakklandi og Fiona Stoddart frá Skotlandi. Þau hafa öll hjálpað til í Melrakkasetrinu undanfarið og hresst upp á samfélagið í Eyrardal.

Sumarið byrjar vel í Melrakkasetri - hlökkum til að sjá ykkur

 

Vefumsjón