29.05.2011 - 20:07

Sumartími - Gaggađ í grjótinu 2. júní !

Mynd: Ágúst Atlason
Mynd: Ágúst Atlason
Nú er komið að því að Melrakkasetrið stilli á sumartímann því fyrsta júní næstkomandi verður opið frá 10 til 22 alla daga. Rebbakaffi og Rebbasýning, leikhúsloft, náttúrulífsmyndir, barnahornið og tónleikar er það sem boðið verður upp á í sumar. Á Rebbakaffi verður hefðbundið heimilisbakkelsi eins og áður og eru þar rebbakakan og rebbabara-vafflan fremstar í flokki. Í sumar verður einnig boðið upp á súpu og heimabakað brauð ásamt ávaxtaþeytingi (smoothies). Öl og léttvín er til reiðu og nú hafa bæst við þeir Bjartur og Úlfur frá brugghúsinu Borg. Seinna í sumar verður boðið upp á bláberjatengdan matseðil í tilefni Bláberjadaga sem haldnir verða dagana 26. - 28. ágúst.

 
Gaggað í grjótinu verður frumsýnt þetta árið fimmtudaginn 2. júní kl. 20.00 og verður sérstakt tilboð á þessa sýningu í tilefni dagsins: miðaverð er aðeins 1000 kr !

Næstu sýningar verða svo 23. júní, 7. júlí og 21. júlí auk þess sem ein sýning verður í ágúst. Miðaverð er 1500 kr.

 
Við höfum fengið til liðs við okkur nýtt starfsfólk og hjálparliða til viðbótar við þau sem stóðu vaktina síðastliðið sumar. Fanney, Fjóla og Hjörleifur ætla að koma aftur og Sonja Lind Sveinbjörnsdóttir bætist í hópinn. Inga Vala og Rúna koma af og til og rifja upp gamla takta. Mauritz frá Þýskalandi hefur verið hjá okkur sl. tvær vikur og stendur sig með prýði, sama hvaða verkefni hann fær - við köllum hann Móra enda hljómar nafnið hans næstum þannig þegar hann segir það sjálfur. Móri er jarðfræðinemi og ætlar að vinna verkefni hjá okkur í sumar en hefur einnig sýnt mikil tilþrif í fyrirlestrahaldi, sýningarleiðsögn, vöfflubakstri og símsvörun (á íslensku). Sjálfboðaliðar það sem af er þessu ári hafa verið þau Lexie & Conor frá Bandaríkjunum, Tobi & Karlien frá Belgíu, Sabrina & Remco frá Hollandi og svo Móri. Vöktun á refum í Friðlandi Hornstranda hefst upp úr miðjum júní og verða einnig farnar refaskoðunarferðir á vegum Vesturferða og Borea Adventures.

Vefumsjón