02.06.2010 - 21:39

Sumarstarfsmenn Melrakkasetursins mćttir

Rúna, Inga Vala, Fanney og Hjörleifur í sólinni á pallinum
Rúna, Inga Vala, Fanney og Hjörleifur í sólinni á pallinum
« 1 af 3 »
Vaskur hópur mætti til vinnu í Eyrardalsbæinn í dag til að hreinsa til og þrífa og gera klárt undir sýningu og kaffihús. Þetta eru þau Inga Vala, Rúna, Fanney, Fjóla og Hjörleifur og koma þau til með að starfa hjá okkur í sumar. Ekki veitir af mannskapnum því setrið verður opið í 12 tíma á dag, sýningin verður opin 10-18 og kaffihúsið verður opin 10-22, alla daga vikunnar, frá og með 12. júní kl. 12 og út ágústmánuð.
Smiðir, píparar og rafvirkjar voru enn að störfum við lokaverkefni og innansleikjur og hrukku undan moppuvæddum hópnum með tól sín og tæki. Ekki er eftir neinu að bíða enda bara 9 dagar til opnunar og hver sendingin af annari að berast af sýningardóti, húsgögnum, leirtaui og fleiru sem verður á Melrakkasetrinu.

Opnunin verður laugardaginn 12. júní kl. 12 og mun Katrín Júlíusdóttir, ráðherra ferðamála, opna sýninguna fyrir gesti. Sýnt verður stutt atriði úr leikritinu Melrakki, sem Kómedíuleikhúsið mun sýna á loftinu alla fimmtudaga í sumar kl. 20 en leikritið verður frumsýnt miðvikudaginn 16. júní.

Eftir opnunina, nánar tiltekið kl. 17 ætla Vesturferðir að fara í ferð á refaslóðir til Hesteyrar og er hægt að bóka sig í þá ferð í síma Vesturferða 456 5111 eða með tölvupósti til elias@vesturferdir.is. Fyrirtækið sér einnig um að útvega flutning og útsýnisferð fyrir þá sem koma með morgunflugi og vilja fara með seinna flugi á laugardeginum. Eins er hægt að gista á Hótel Ísafirði eða í sumarbyggðinni í súðavík, þar sem hægt er að leigja herbergi og deila húsi með nokkrum öðrum. Það eru Eggert og Michelle Nielson hjá Iceland Tour Guy sem eiga húsin og bjóða Melrakkasetrinu 15% afslátt af gistingu fyrir á gesti sem koma á okkar vegum. Hægt er að fá ýmist uppábúin rúm eða svefnpokapláss. Upplýsingar um ferðirnar og gistimöguleika er að finna á www.icelandtourguy.com og www.vesturferdir.is
Eins bendum við á einstaklega gott tjaldstæði í Súðavík, með hreinlætisaðstöðu, sturtu og þvottavél, svo eitthvað sé nefnt.
Að sjálfsögðu er kaffihúsið opið frá og með fyrsta degi og tilvalið að fá sér einn kaldan í góðra vina hópi um kvöldið, hver veit nema einhverjir taki upp gítar og bresti í söng.
Ókeypis verður á sýninguna alla opnunarhelgina en hægt að kaupa veitingar á Rebbakaffi á vægu verði. Þar verður súpa og heimabakað brauð í hádeginu, dýrindis tertur og annað heimabakkelsi, sætt og ósætt. Boðið er upp á gosdrykki, öl og léttvín og meira að segja „refaskot" fyrir þá sem þora. Úr kaffihúsinu er gengið út á pall sunnan við húsið þar sem notalegt er að slaka á og sleikja sólina með kaldan svaladrykk eða kaffibolla og skrifa póstkort eða bara njóta kyrrðar og náttúrufegurðar. Opinn internetaðgangur verður á Melrakkasetrinu og boðið upp á aðstöðu fyrir fundi og litlar ráðstefnur auk þess sem við erum opin fyrir því að hýsa ýmsar uppákomur sem henta þessu gamla og virðulega húsi. Á kaffihúsinu verður jafnframt einkasýning á einstöku frímerkjasafni Helga Gunnarssonar.
Vefumsjón