17.04.2013 - 10:10

Sumarstarf í Melrakkasetri

alltaf sól á pallinum í Eyrardal
alltaf sól á pallinum í Eyrardal
Velferðaráðuneytið og Vinnumálastofnun standa fyrir átaksverkefni til að fjölga sumarstörfum fyrir námsmenn á vegum stofnana ríkisins og sveitarfélaga. Skilyrði fyrir ráðningu námsmanna er að þeir séu á milli anna í námi.
Melrakkasetrið tekur þátt í þessu verkefni og óskar eftir sumarstarfsmönnum sem uppfylla þessi skilyrði.

 

Starfslýsing:
Áframhaldandi þróun og uppbygging náttúru og menningartengdrar ferðaþjónustu í Melrakkasetri í Eyardal. Fjölbreytt starf í boði við uppbyggingu upplýsingamiðstöðvar, endurnýjun efnis, uppröðun, umhirðu og framsetningu muna á sýningu. Leiðsögn um sýningu og móttaka innlendra sem og erlendra ferðamanna. Þátttaka í að þróa, skipuleggja og framkvæma viðburði og barnaleiðsögn. Framleiðsla og afgreiðsla á handverki og heimilislegu morgunverðar- og kaffiborði, sem og þrif og umsjón. Þróun og framkvæmd umhverfis- og samfélagsstefnu, aðlögun að VAKA vottunarkerfi. Símsvörun, birgðahald, bókun á sal og leiksýningum, gerð auglýsinga, létt bókhald og aðstoð við heimasíðu ásamt öðru tilfallandi. Söfnun og miðlun upplýsinga um framboð ferðaþjónustu í Súðavíkurhreppi skv. samningi um svæðisbundna upplýsingamiðstöð.

 

Hæfniskröfur:
Fjölhæfni og jákvæðni. Áhugi, færni og reynsla af ferðaþjónustu. Þekking og áhugi á menningu, náttúru og villtu dýralífi, góð íslensku, ensku- og helst þýskukunnátta, hæfni í samskiptum og vilji til að miðla þekkingu, hæfileiki til að sinna fjölbreyttum verkefnum, lágmarksaldur 20 ár, þekking á tölvuvinnu og ljósmyndun. Kunnátta í eldhúsi, bakstur og framreiðsla matvæla og drykkja, vandvirkni og þrifni. Aðrir kostir: áreiðanleiki, sveigjanleiki, lífsgleði, vinnusemi og stundvísi, bílpróf.
Athugið að Melrakkasetrið er reyklaus vinnustaður.

 

Ráðningatími:
Ráðningartíminn eru þrír mánuðir: júní - ágúst 2013. Vinnutími getur verið sveigjanlegur og unnið er á vöktum. Opnunartími er frá 9 til 22 alla daga. Laun eru greidd skv. kjarasamningi afgreiðslufólks á gisti og veitingastöðum, sjá uppl. á heimasíðu Verkalýðsfélags Vestfjarða: www.verkvest.is. Í Súðavík er verslun, pósthús, bensínstöð og bankaþjónusta. Auk þess fjölskyldugarðurinn Raggagarður. Möguleiki er að útvega leiguhúsnæði á sanngjörnu verði. Ísafjörður er í 20 km fjarlægð og eru rútuferðir á milli þrisvar á dag.

 

Umsóknarfrestur er til 10. maí 2013. Umsóknum skal skila rafrænt með tölvupósti í netfangið: melrakki@melrakki.is. Ferilskrá fylgi með umsókninni.

 

Stefnt er að því að ljúka ráðningum um miðjan maí. Starfið hefst 1. júní en getur hafist fyrr. Öllum umsóknum verður svarað.

Ester Rut Unnsteinsdóttir, forstöðumaður


Vefumsjón