21.09.2012 - 17:22

Sumariš er bśiš og haustiš skolliš į

Gušnż, fręnka höfundar, kom og fęrši okkur bókina um Gušmund sem fer į veišar meš afa
Gušnż, fręnka höfundar, kom og fęrši okkur bókina um Gušmund sem fer į veišar meš afa
« 1 af 4 »
Melrakkasetrið var vel sótt í sumar og má segja að aðsóknarmet hafi verið slegið hvað varðar gestafjölda og þátttöku á viðburðum. Gestir í heild voru líklega vel yfir sexþúsund, þar af á þriðja þúsund á sýninguna. Afmælishátíðin var vel sótt og gaf góðan byr fyrir sumarið. Við höfum fengið gesti frá öllum heimshornum og margir vildu gerast sjálfboðaliðar til að leggja setrinu lið. Melrakkasýningin hefur hlotið mikla athygli og kom sexþúsundasti gesturinn í heimsókn í ágúst. Rebbakaffi sló rækilega í gegn og vaxandi hópur heimamanna kemur reglulega við til að fá sér kaffi og með því. Hornstrandasúpan og Ísabellubrauðið þykja bæði ljúffeng og góð máltíð og kærkomin tilbreyting frá öðru sem í boði er handa ferðalöngum á svæðinu. Ýmsar uppákomur og viðburðir hafa verið vel sótt og efnilegir tónlistarmenn hafa stigið á svið á menningarloftinu. Við erum stolt af því að hafa okkar eigin brúðuleikhús en Mikki og melrakkarnir voru vinsælir á loftinu. Lokahátíð sumarsins voru hinir einu og sönnu Bláberjadagar en Melrakkasetrið tók virkan þátt í hátíðahöldunum að venju. Við héldum nokkrar keppnir tengdar bláberjum, t.d. FYLLUKEPPNI, sem nokkrir misskildu, keppni um stærsta berið og keppni í því hver væri fljótastur að klára bláberjapæjuna. Hjá okkur var hægt að fá andlitsmálun og bláberjanaglalakk sem var mjög vinsælt. Á föstudagskvöldið voru tónleikar og flutti bláberjalestin mannskapinn á milli staða. Á sunnudag var svo boðið upp á bláberjalummur og málað á steina fyrir utan. Við erum þakklát fyrir öll skemmtilegheitin og vonum að allir hafi skemmt sér eins vel og við gerðum á bláberjadögum í Súðavík.

Melrakkasetrinu bárust góðar gjafir í sumar, meðal annars mættu þeir Guðmundur Guðmundsson og Davíð barnabarn hans með bókina „Á refaslóðum" eftir Theodór Gunnlaugsson en hún var nýlega endurútgefin.  Barnabókin GUMMI FER Á VEIÐAR MEÐ AFA er frumraun höfundarins Dagbjartar Ásgeirsdóttur. Sögusviðið eru Vestfirðir og koma refir að sjálfsögðu við sögu en Dagbjört hefur ekki langt að sækja refasögurnar enda barnabarn Jóns „rebba" Oddssonar og Guðmundu Guðmundsdóttur - Einarssonar frá Brekku á Ingjaldssandi. Bókin er fallega myndskreytt af Karli J. Jónssyni myndlistarmanni. Við munum hafa eintök af þessari frábæru bók til sölu í Melrakkasetrinu.

Guðmundur Guðmundsson kom svo aftur með barnabarnabörnum og afhenti setrinu tvö forláta viðtæki. Annað tækið er nú þegar komið í notkun í Herráðsstofunni og mun þar hljóma útvarpsþátturinn „maður og melrakki" sem Magnús Örn Sigurðsson flutti fyrir tveimur árum á Rúv.  Við erum gríðarlega þakklát fyrir þessar gjafir og allan þann meðbyr sem við fáum í Melrakkasetrinu, það verður seint hægt að þakka öllum sem standa við bakið á okkur en við eigum gott bakland, það er ljóst.

Ennþá er opið alla daga frá 10.00 - 18.00 og verður áfram í vetur.  Við höfum fengið ýmsa góða gesti þrátt fyrir að haustið sé að ganga í garð með tilheyrandi óvissu í veðurfari. Það er alltaf notalegt að sitja inni í Rebbakaffi og fá sér heita súpu eða drykk meðan vindurinn og regnið hamast úti.  Álftafjörðurinn er einnig fagur í hauststillum og speglast þá fjöllin í firðinum. Undanfarið hefur verið ansi mikið um norðurljósadýrð á næturhimninum og gaman að vera úti til að njóta þegar þannig stendur á.  Við höfum undanfarið notið góðrar aðstoðar þeirra Eric Maes og Philippe Beck frá Belgíu og Thomas Julian Turner sem kemur alla leið frá Ástralíu. Kjartan Geir Karlsson og Þórir Sigurhansson hafa einnig verið liðtækir þegar á þarf að halda. Ásamt þeim Philippe og Julian eru Fanney, Sonja og Aldís ennþá hjá okkur í vetur, milli þess sem þær sinna sínu námi. Von er á Josh Chipman frá Texas en hann var sjálfboðaliði hjá okkur í sumar og langar að prófa að vera í Súðavík að vetrarlagi.

Af og til verða haldnir viðburðir og er þá opið lengur þegar það á við. Næsti viðburður verður á föstudaginn 5. október næstkomandi en þá ætla þau Pétur og Milla að standa fyrir „þjóðarsúpu-kvöldi". Hugmyndin er að hafa slíkt kvöld einn föstudag í mánuði í vetur. Fyrsta kvöldið verður írsk kartöflusúpa og verður fluttur húslestur og írsk tónlist af því tilefni. Kostnaður verður í lágmarki og boðið upp á súpu, nýbakað brauð og kaffi á aðeins 900,-kr. fyrir manninn. Boðið verður upp á barnaskammt á 500,-kr. þegar fjölskyldan kemur saman. Þannig myndu t.d. hjón með tvö börn greiða 2.800,-kr. fyrir súpu, brauð og foreldrarnir fá kaffi á eftir.

Ef einhvern langar að gera eitthvað sniðugt í Melrakkasetrinu, endilega hafið samband. Við getum vel hugsað okkur að halda ýmiskonar viðburði í léttum dúr og gefa fólki kost á afþreyingu í skammdeginu.  Opnir viðburðir eru auglýstir sérstaklega, þetta geta til dæmis verið tónleikar, brúðuleikhús, bíókvöld, súpukvöld, handverk og listasýningar, spilakvöld, draugakvöld, glæpakvöld, grímubúningakvöld eða bara eitthvað annað.

Hægt er að panta húsið fyrir ýmsa viðburði, einkasamkvæmi, heimsóknir, fundi og ráðstefnur. Pláss er fyrir 45 manns á fyrirlestri, 20 manns á kaffihúsi og 30 manns við borð á efri hæð. Internetaðgangur og skjávarpi er á staðnum. Ýmsar veitingar í boði eftir því sem hentar hverju sinni. Endilega hafið samband, fáið tilboð og bókið ykkur í síma 456 4922 eða með tölvupósti í netfangið melrakki@melrakki.is

 

Vefumsjón