01.11.2015 - 11:12

Sumariđ 2015

Pakkađ fyrir vettvangsferđ
Pakkađ fyrir vettvangsferđ
« 1 af 2 »

Sumarið hjá okkur var alveg hreint frábært og tíminn fljótur að líða. Við viljum þakka öllum gestunum sem komu í heimsókn til okkar. Það er alveg hreint yndislegt að sjá hvað fólk allstaðar að úr heiminum hafa áhuga á að koma til okkar í Eyrardal og sjá það sem við erum að gera og læra um tófuna hérna á Íslandi. Á þessu ári höfum við fengið fleiri gesti en áður en á aðeins tveimur árum hefur gestafjöldinn aukist um 200% sem er alveg magnað.

 

Við erum líka svo heppin eins og áður að vera með frábært starfsfólk, nema, sjálfboðaliða og vini sem gerðu sumarið ótrúlega skemmtilegt. Genka stóð vaktina eins og herforingi í eldhúsinu þriðja sumarið í röð. Friðrik byrjaði hjá okkur í maí og svo gengu Snæfríður og Sylvía til liðs við okkur í byrjun júní. Svo var það hún Arney sem hjálpaði okkur að klára sumarið með stæl! Nemarnir okkar, þær Doriane og Chloé komu líka til okkar í júní frá Frakklandi og Sviss. Þær voru hjá okkur mest allt sumarið og fóru í allar Hornstrandaferðirnar. Það hefði ekki verið hægt að biðja um betra fólk í sjálfboðastarfið hjá okkur, allir svo áhugasamir, lifandi og skemmtilegir.

Í sumar var byggð ný refagirðing sem er stærri og flottari en áður þar sem refirnir okkar hafa meira pláss til að hlaupa um. Þar búa fallegir mórauðir melrakkar, vinirnir Ingi og Móri sem komu til okkar í sumar sem litlir yrðlingar en eru núna orðnir myndarlegir rebbar með flottan vetrarfeld.

Einnig urðu smá breytingar inni á safninu í byrjun sumars þegar við bættum efri hæð hússins við sýninguna. Nú er stærri hluti sem fjallar um rannsóknir á refnum en á efri hæðinni er hægt að læra um refaveiðar og samband melrakka og manna í gegnum tíðina. Starfsmenn setursins fengu einnig þá flugu í höfuðið að færa afgreiðsluborðið í skjóli nætur en annars urðu ekki fleiri stórvæglegar framkvæmdir hjá okkur.

Við þökkum kærlega fyrir þetta frábæra sumar og hlökkum til næsta árs!

Snæfríður og hinir rebbarnir 

Vefumsjón