23.05.2012 - 18:03

Sumar í Melrakkasetri

Sonja Lind og Aldís Ósk hjá listaverkum Maríu
Sonja Lind og Aldís Ósk hjá listaverkum Maríu
« 1 af 2 »
Nú er sumarið aldeilis að hefjast í Melrakkasetrinu og fyrstu starfsmenn sumarsins mættir á svæðið. Sonja Lind og Aldís Ósk eru þær fyrstu en svo bætast þær Ísabella og Fanney í hópinn þegar líður á júnímánuð. Opnunartími í maí er 10-17 en frá og með 1. júní er opið 10-22 alla daga í Melrakkasetri.

Listasýning Maríu stendur nú yfir í Rebbakaffi og listamarkaður opnar á loftinu um hvítasunnuhelgina.  Kíkið við, kaffi á könnunni - opið verður frá 13 - 18.

Rebbakaffi þarf ekki að kynna fyrir neinum en þangað er ávallt gott að koma til að fá sér gómsætt heimabakkelsi og ljúffenga drykki. Pallurinn svíkur engan og fer hitastigið oft upp fyrir suðumark hjá okkur.


Sýning Melrakkaseturs hefur fengið einróma lof gesta og umfjöllun í sífellt fleiri ferðabókum. Við höfum bætt við nýjum sýningargrip sem verður frumsýndur á afmælishelginni þann 10. júní. Um er að ræða forláta snoðdýr og hugsanlega er þarna á ferðinni hið eina sanna skoffín. Hvítabjörn er væntanlegur með sumrinu en komutími er óljós eins og búast má við að slíkum skepnum.

Fyrirhuguð sumardagskrá er í vinnslu og verður gert ráð fyrir reglulegum viðburðum í allt sumar. Samið hefur verið við Kómedíuleikhúsið til að setja á svið brúðuleikritið Mikka og melrakkana en Menningarráð Vestfjarða veitti styrk til sýningarinnar. Sviðsmynd og brúður eru eftir Lilju og Ástu, leikbrúðusmiða á Drangsnesi en handrit er unnið af Ástu, Ester og Elfari Loga. Leikarar eru þær Alda Marín og Mekkín Silfá og leikstjórn er í höndum Elfars Loga. Brúðuleikritið verður sýnt á laugardagseftirmiðdögum í sumar.

Á sunnudögum, miðvikudögum og oftar ef vill, fyllist loftið af listamönnum og handverksfólki sem sýnir og selur verk sín í Melrakkasetrinu. María og Sveinbjörn hjá Art Vest hafa umsjón með listaloftinu.

Á föstudagskvöldum er gert ráð fyrir lifandi tónlist og notalegheitum og hvetjum við alla tónlistarmenn til að koma og prófa að spila á þessu dásamlega lofti. Á slíkum kvöldum er opið lengur því stemningin er góð.

Fyrirhugað pöbbarölt verður auglýst nánar síðar ásamt fleiri viðburðum sem gaman verður að taka þátt í (til dæmis er læðukvöld í bígerð ásamt fleiru). Ef menn hafa sérstakar óskir um viðburði eða langar að fá loftið að láni þá er bara að hringja og panta).

Í lok sumars verða svo Bláberjadagar haldnir hátíðlegir í Súðavík - munið að taka helgina frá, meira um það síðar.

 

 

Vefumsjón