01.03.2010 - 09:42

Styrkur frá VaxVest

Á dögunum var undirritaður samningur milli Melrakkasetursins og Vaxtarsamnings Vestfjarða. Styrkurinn er til klasaverkefnis sem kallað er „Villt dýr að féþúfu" og er samstarfsverkefni milli Melrakkaseturs, Náttúrustofu Vestfjarða, Rannsókna- og fræðaseturs HÍ á Vestfjörðum, Vesturferða og Borea Adventures.

Um er að ræða samstarf í vöruþróun á náttúrulífstengdri ferðaþjónustu í kringum villt dýralif á Vestfjörðum. Á Vestfjörðum eru óvenju fjölbreyttir möguleikar fyrir náttúrulífstengda ferðaþjónustu og mikill mannauður, þekking og reynsla sem mun nýtast vel í áframhaldandi uppbyggingu hennar. Refurinn hefur ekki verið tekjulind fyrir þjóðina í næstum hundrað ár heldur kostað sveitafélög milljónir á ári í langan tíma. Hugmyndin er að snúa þeirri stefnu við og gera Vestfirðingum kleift að hafa tekjur af tófunni á sjálfbæran hátt enda má kalla refinn einkennisdýr Vestfjarða.

Ferðaþjónustuaðilar á Vestfjörðum koma flestir að einhvers konar dýralífstengdum málum, s.s. vegna sjóstangveiði, fugla (Hornstrandir, Látrabjarg, Vigur), refa (Hornstrandir), selir sjást víða og hér er nokkuð um hvali. Ekkert annað landsvæði af sömu stærðargráðu hefur jafn auðveldan aðgang að eins mörgum áhugaverðum dýrahópum. Það er því mikilvægt fyrir alla hagsmunaaðila að vekja athygli á þeirri sérstöðu og nýta sér þá þekkingu sem hér er.

Samstarfsaðilar á Vestfjörðum og landsvísu, taka þátt í norðurslóðaverkefni um þróun náttúrulifsferðamennsku á norðurslóðum, The Wild North, en það er samnorrænt verkefni, styrkt af NORA, NATA o.fl. (sjá www.thewildnorth.org). Félagar TWN framkvæma grunnrannsóknir og haldin eru námskeið og vinnufundir (workshop), sem eru sérstaklega miðuð að þörfum ferðaþjónustufyrirtækja og annarra hagsmunaaðila náttúrulífstengdrar ferðaþjónustu. Þróað verður vottunarkerfi sem nýtist ferðaþjónum í markaðssetningu ferða sinna. Þátttaka í TWN er mikilvæg fyrir uppbyggingu náttúrulífsferðaþjónustu í fjórðunginum og gerir okkur hæfari til að þróa okkar vöru og þjóna viðskiptavinum okkar.
Miklar væntingar eru gerðar til náttúrulífsferðamennsku í dag (nægir að nefna ræðu ráðherra ferðamála á Ísafirði sl. haust, sjá http://bb.is/?PageID=26&NewsID=138438). Þátttakendur í verkefninu hafa trú á því að aukin verðmætasköpun sé fólgin í því að ná til þeirra fjölmörgu ferðamanna sem skipuleggja ferðir sínar gagngert til að sjá villt dýr og óspillta náttúru. Þetta er sá efniviður sem flestir hagsmunaaðilar á Vestfjörðum hafa upp á að bjóða til ferðamanna og telst helsta aðdráttarafl svæðisins. Sé rétt að málum staðið og ef fyrir liggur trygg vottun fyrir því að þjónustuaðilar hér stundi ábyrga og sjálfbæra ferðamennsku opnast aðgangur að þessum verðmæta hópi ferðamanna sem hefur lítið skilað sér hingað til þessa. Með því að stuðla að sjálfbærri þróun náttúrulífstengdrar ferðaþjónustu á Vestfjörðum má tryggja undirstöður greinarinnar, afkomu þeirra sem í henni vinna og varðveislu náttúruauðlinda til lengri tíma.

Styrkurinn mun koma sér mjög vel því nóg eru verkefnin, áætlað er að verkefnið taki 3 ár og er þegar byrjað að gera áætlanir fyrir næsta sumar.
 
Vefumsjón