17.05.2010 - 13:26

Styrkur frá Menningarráđi Vestfjarđa

Rauđrefur (Vulpes vulpes). Mynd: Olger Kooring
Rauđrefur (Vulpes vulpes). Mynd: Olger Kooring
« 1 af 3 »
Fyrri styrkúthlutun Menningarráðs Vestfjarða á árinu 2010 fór fram í Skrímslasetrinu á Bíldudal laugardaginn 15. maí. Voru þar afhent 34 vilyrði um styrki frá Menningarráði Vestfjarða, að upphæð samtals 15 milljónir.
Melrakkasetur Íslands hlaut að þessu sinni veglegan styrk, að upphæð ein milljón króna til verkefnisins: Sýning Melrakkaseturs Íslands - fræðslu miðlað til barna. Fjögur önnur verkefni fengu jafnháan styrk en þetta er hæsta styrkupphæð sem Menningarráðið veitir. Þröstur Reynisson frá Patreksfirði tók við styrknum fyrir hönd Melrakkasetursins.

Verkefnið gengur út á að skapa og lífga við þrjár persónur, þau Mikka, Móra og Mjallhvíti sem eru öll refir og hittast í Melrakkasetrinu. Mikki er rauðrefur (e. red fox, lat. Vulpes vulpes) frá Hálsaskógi í Noregi, hefur oft komið til Íslands og er því nokkuð frægur. Móri og Mjallhvít eru frá Jökulfjörðum á Vestfjörðum, dæmigerðar íslenskar tófur (e. arctic fox, lat. Vulpes lagopus), hún hvít en hann mórauður. Með framkomu sinni og samtölum munu dýrin sýna börnunum sinn heim og þannig læra börnin um það hvað er líkt og hvað er ólíkt með refum af mismunandi tegundum, á ýmsum árstímum og í þeim búsvæðum sem báðar eða bara önnur tegundin lifir. Þessar upplýsingar fá börnin með mismunandi leiðum og verður frekari þróun á framsetningu og hugmyndum á næstu mánuðum.

Melrakkasetrið þakkar kærlega fyrir sig og vonast til að rebbagengið okkar lifni við strax í vor og veki gleði og kátínu hjá öllum sem heimsækja sýninguna okkar í sumar.
Nánar um Menningarráð Vestfjarða á síðunni http://www.vestfirskmenning.is/
Vefumsjón