03.05.2011 - 10:03

Starfsfólk í sumar

Starfsfólk Melrakkaseturs sl. sumar
Starfsfólk Melrakkaseturs sl. sumar
Velferðaráðuneytið og Vinnumálastofnun standa í sumar fyrir átaksverkefni til að fjölga störfum á vegum stofnana ríkisins og sveitarfélaga, fyrir námsmenn og atvinnuleitendur. Skilyrði fyrir ráðningu námsmanna er að þeir séu á milli anna í námi en atvinnuleitendur þurfa að vera á skrá Vinnumálastofnunar með staðfestan bótarétt. Melrakkasetrið tekur þátt í þessu verkefni og óskar eftir starfsmönnum sem uppfylla þessi skilyrði.

Starfslýsing:
Aðstoð við áframhaldandi þróun og uppbyggingu starfseminnar í Melrakkasetri Íslands, Eyardal. Fjölbreytt starf í boði við skráningu, uppröðun og framsetningu muna á sýningu. Leiðsögn um sýningu og móttaka innlendra sem og erlendra ferðamanna. Þátttaka í að þróa, skipuleggja og framkvæma viðburði og barnaleiðsögn. Framreiðsla og afgreiðsla á handverki og heimilislegum veitingum, þrif, símsvörun, bókun á sal og leiksýningum, létt bókhald og aðstoð við heimasíðu ásamt öðru tilfallandi.

Hæfniskröfur:
Áhugi og reynsla af ferðaþjónustu, æskilegt væri að viðkomandi hafi sótt námskeið um færni í ferðaþjónustu (sjá www.frmst.is). Þekking á náttúru og villtu dýralífi, ensku- og helst þýskukunnátta, hæfni í samskiptum og vilji til að miðla þekkingu og veita góða þjónustu, hæfileiki til að sinna fjölbreyttum verkefnum, lágmarksaldur 20 ár, þekking á tölvuvinnu og ljósmyndun. Kostir sem verða metnir: reynsla, fjölhæfni, áreiðanleiki, sveigjanleiki, lífsgleði, vinnusemi og stundvísi. Bílpróf er skilyrði.

Ráðningatími:
Ráðningartíminn er tveir mánuðir: í júní og júlí. Laun eru greidd skv. kjarasamningi afgreiðslufólks á gisti og veitingastöðum, sjá uppl. á heimasíðu Verkalýðsfélags Vestfjarða: verkvest.is.
Umsóknarfrestur er til 16. maí. Umsóknum skal skila rafrænt með tölvupósti í netfangið: melrakki@melrakki.is.
Ferilskrá fylgi með umsókninni.
Stefnt er að því að ljúka ráðningum um miðjan maí. Starfið hefst 1. júní en getur hafist fyrr.
Öllum umsóknum verður svarað.

Ester Rut Unnsteinsdóttir, forstöðumaður

Vefumsjón