31.07.2013 - 11:28

Skötuveisla, bakland og sumarblíđa

Rúna međ gítarinn
Rúna međ gítarinn
« 1 af 3 »

Bakland Melrakkasetursins hefur heldur betur verið að þéttast undanfarið. Þannig er að hægt er að kaupa hlut í félaginu og styðja þannig við bakið á starfseminni. Vegna non-profit stefnu okkar er arðurinn enginn en hlutafélagar eru boðaðir á árlegan aðalfund félagsins og kynna sér helstu verkefni og stöðu fjármála. Nú eru félagar Melrakkasetursins orðnir 69 talsins, þar af níu sem búsettir eru erlendis. Stundum koma gestir sem kaupa sér hlut í félaginu og má nefna hjón frá Boston og áhafnarmeðlimi af norskum selfangara sem nú eiga skjal frá okkur. Nýjustu hluthafarnir eiga rætur sínar að rekja hingað í Eyrardalinn en ein af börnum Ingu og Kjartans, hún Jóna, flutti til Bandaríkjanna 17 ára gömul og þau eru afkomendur hennar. Ekki nóg með að þau hafi keypt hlut í Melrakkasetrinu heldur tryggðu þau sér einnig sæti í Rebbakaffi. Við erum afar þakklát og stolt af nýjum eigendum, svo og öðrum gestum sem hafa einnig keypt stól og tryggt sér sæti á loftinu eða í Rebbakaffi. Það hlýjar hjartarætur okkar melrakkanna að fá svona stuðning og við kjósum að trúa því að fólk sé ánægt með okkar starf og verkefnið Melrakkasetur Íslands. Ekki dugar samt annað en að halda áfram að vanda til verka og við gerum okkar besta til að standast væntingar eigenda okkar og allra þeirra sem okkur heimsækja.

Seinnihluta júlímánaðar hefur veðrið svo sannarlega leikið við okkur, sólskin og hlýindi upp á hvern dag. Pallurinn hefur verið þaulsetinn og nauðsynlegt hefur verið að bjóða upp á sólarvörn fyrir mannskapinn.  Veitingarnar eru ekki af verri endanum, okkar sívinsælu Rebbabaravöfflur, Hjónabandssælan góða og Súkkulaði-rebbakakan. Suma daga hefur verið boðið upp á sérbakað croissant, karamellu döðluköku, dásamlega rabbabara-ostaköku, heilsuköku úr hnetum og ávöxtum og annað ljúfmeti. Það var hún Juliann Schamel eða Juice eins og við köllum hana sem galdraði fram þessar yndislegu uppskriftir. Við kvöddum hana með tárum í gær en hún skildi eftir sig alveg sérstaka uppskriftabók sem við notum að sjálfsögðu heilmikið. Það er tímafrekt að baka croissant en þó er þetta eitt af því sem okkur þykir einstaklega gaman að bjóða upp á enda ljúffengt. Heilsukakan eða hrákakan hefur komið skemmtilega á óvart enda ótrúlega ljúffeng og ekki spillir hvað hún er holl: enginn sykur, ekkert hveiti, engin lyftiefni ... bara góð :-)

Þorláksmessa að sumri var haldin laugardaginn 27. júlí í sól og blíðu. Iddi, Rúna og Jónas höfðu veg og vanda að þessari dásamlegu veislu. Boðið var upp á kæsta skötu, skötustöppu, saltfisk og plokkfiskinn okkar góða ásamt hnoðmör og mörfloti. Veislan var einstaklega vel heppnuð og var tekið vel til matar síns, spilað og sungið. Vonandi verður þetta árlegur viðburður hjá okkur í Melrakkasetrinu ef áhugi er nægur.

Fjöldi gesta á sýninguna og í Rebbakaffi er langtum framar væntingum þrátt fyrir mikið rask og ónæði vegna framkvæmda á bílaplani og lóð. Suma daga liggur við umferðaröngþveiti og þyrfti jafnvel að handstýra bílum í stæði. Við vonumst þó til að í lok ágúst verði allt tilbúið og að hér verði komið stærra og öruggara bílastæði og göngustígar að setrinu fyrir gesti bæjarins. Hann Arnar smiður hefur unnið að ýmsum verkefnum hér í bænum, meðal annars smíðaði hann fallega bogabrú yfir Eyrardalsána og skemmtilegt grillskýli á tjaldstæðið. Verið er að vinna að því að fegra umhverfi kirkjunnar og minnisvarðans og svo verður byggð aðstaða til fuglaskoðunar á Langeyri. Bráðum verður því allt fínt og snyrtilegt í kringum Eyrardalsbæinn og um allt þorpið.

Nú er verslunarmannahelgin framundan og eins og áður er boðið upp á rólegheit og fjölskylduvæna stemningu í Súðavík. Raggagarður er alltaf opinn og þangað er tilvalið að fara með börnin og leika sér svolítið. Svo koma menn auðvitað í Melrakkasetrið, kíkja á rebbana (annar heitir Lítill og hinn heitir Trítill) og fá sér í svanginn. Hér er alltaf hægt að ná sér í pensil og málningu og mála á steina og geta börn á öllum aldri alveg gleymt sér í listsköpuninni.


Endilega kíkið í kaffi og hressið upp á sálina með heimsókn í Eyrardal – við tökum vel á móti ykkur.

Dæmi af matseðlinum: morgunmatur (1000 kr), súpa og brauð (1000 kr), plokkfiskur (1200 kr) vaffla með rjóma og sultu (600 kr), hjónabandssæla (600 kr), súkkulaðikaka (700 kr), Cappuchino, Latte, Espresso, Írskt kaffi, appelsín og malt ...

melrakkarnir

Vefumsjón