04.03.2014 - 09:28

Samstarfsvettvangur um refa- og minkaveiđar  • Ljósmynd Sigurður Á. Þráinsson
    Ljósmynd Sigurður Á. Þráinsson


Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur skipað samstarfsvettvang til að fylgja eftir tillögum sem fram komu í skýrslu starfshóps ríkis og sveitarfélaga um framkvæmd refa- og minkaveiða. Samstarfsvettvangnum er falið að auka samræmingu og skilvirkni í málaflokknum og að formgera samstarf þeirra aðila sem að framkvæmd veiða á ref og mink koma.

Í fyrrnefndri skýrslu voru lagðar til margs konar umbætur er varða framkvæmd refa- og minkaveiða. Verkefni samstarfsvettvangsins verður að fylgja eftir tillögum í skýrslunni og koma þeim umbótum sem þar eru tilgreindar í framkvæmd.

Snúast þær umbætur um skipulag veiðanna og framkvæmd þeirra. Meðal annars er vettvangnum ætlað að standa að samráði um setningu markmiða fyrir veiðar á ref og mink og gerð aðgerðaáætlana sem miða að því að ná þeim markmiðum, leggja grunn að breyttum starfsháttum við skipulag og framkvæmd veiðanna og vinna tillögu að breytingu á reglugerð um refa- og minkaveiðar.    

Samstarfsvettvangurinn er skipaður fulltrúum þeirra sem fara með þessi mál samkvæmt lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum en það eru Umhverfisstofnun (formaður), Náttúrufræðistofnun Íslands og Samband íslenskra sveitarfélaga.

Hópurinn er skipaður til næstu þriggja ára og þarf að skila ráðherra árlega skýrslu um starf sitt og framgang veiðanna.

Frettir frá Umhverfis- og auðlindaráðuneytið
http://www.umhverfisraduneyti.is/frettir/nr/2551
Vefumsjón