12.02.2017 - 18:56

Salbjörg Ţorbergsdóttir - minning

Söllusófi í Kofrastofu / herráđsstofunni. Mynd: Ţórđur Sig
Söllusófi í Kofrastofu / herráđsstofunni. Mynd: Ţórđur Sig
« 1 af 3 »

Látin er góð vinkona okkar Salbjörg Þorbergsdóttir frá Súðavík.
Salla, eins og hún var alltaf kölluð, er meðal mikilvægra bakhjarla Melrakkasetursins og hefur stutt við starf okkar frá upphafi.

Þegar verið var að undirbúa opnun sýningar Melrakkasetursins í Eyrardal vorið 2010 kom til tals að Salla ætti í fórum sínum forláta sófa sem hafi verið keyptur af Sigríði í Eyrardal á uppboði eða aksjón. Falast var eftir að fá sófann að láni og þótti Söllu það ekkert tiltökumál en sófinn prýddi svokallaða herráðsstofu sýningarinnar frá upphafi. Hún bauð jafnframt peysuföt og nælu að láni fyrir mig til að vera í við opnunina. Ekki vildi Salla vera neitt að spjalla um þetta framlag sitt en minnistætt er þegar Salla elti mig um húsið til að næla og mæla upp pilsið og vestið til að það myndi passa mér. Hún var ávallt jákvæð og tilbúin til verka eða góðra ráða þegar til hennar var leitað og fyrir það ber að þakka. Ekki lét hún Salla þar við sitja heldur sá hún um að sauma nöfn á efnisbúta þegar Melrakkasetrið safnaði fjármunum til stólakaupa á árdögum setursins. Voru stólarnir merktir kaupanda og það var engin önnur en Salla sem saumaði nöfnin á klæðið. Salla neitaði að taka krónu fyrir verkið og átti í staðinn að fá merkta stóla fyrir sig og eiginmanninn. Hún saumaði þó aldrei þau nöfn og verða aðrir að fara í það verk við fyrsta tækifæri. Það má segja að þetta sé dæmigert fyrir þau hjónin bæði því þau lögðu meira af mörkum til Sýningar Melrakkasetursins en margir aðrir, þó ekki hafi þau haft hátt um sinn þátt og helst ekki viljað að um það væri fjallað. Kjartan lánaði nefnilega líka persónulega muni á sýninguna og var okkur innan handar við uppsetningu hennar.

Síðastliðið haust var haft samband við Söllu því tími var kominn til að skila henni sófanum og þakka fyrir lánið en láta hana jafnframt vita að við vildum láta yfirfara sófann áður en honum yrði skilað. Þó Salla væri orðin veik þá var okkur ekki ljóst að hann kæmist ekki til hennar í tæka tíð. Okkur þótti það miður en sem betur fer náðist að þakka kærlega fyrir að fá að hafa sófann hennar allan þennan tíma.

Við viljum koma á framfæri innilegum samúðarkveðjum til Kjartans og annara aðstandenda Salbjargar. Hún var góð kona og okkur öllum kær. Mikill er missir þeirra sem nú eiga um sárt að binda vegna fráfalls hennar. Guð blessi minningu Salbjargar.

Fyrir hönd stjórnar og aðstandenda Melrakkaseturs Íslands
Ester Rut Unnsteinsdóttir

Vefumsjón