11.10.2009 - 18:43

Saknaši žess aš sjį ekki tófu

Fréttin er fengin af vefnum www.bb.is:

„Þetta var frábær ferð í alla staði. Það var sól og blíða allan tímann og allt gekk vel. Það eina sem ég var ekki alveg nógu ánægður með var að ég hitti engan ref. Ég var alltaf að kíkja eftir tófu af því amma hafði oft gengið fram á refi í sínum fyrri ferðum um Hornstrandir og ég vonaði að ég yrði líka svo heppinn. En ég sá haferni og fleiri skemmtileg dýr," segir Daði Ómarsson, níu ára strákur sem lét sig ekki muna um að ganga um Hornstrandir í fimm daga í sumar með ömmu sinni og fleira fólki.

„Við sváfum í tjaldi allar næturnar og ég borðaði hafragraut á hverjum morgni og stundum líka í matarstoppum yfir daginn. Mér fannst þetta ekkert erfitt en alveg rosalega gaman. Við þurftum líka að sigla á gúmmíbát, stundum að príla og amma þurfti að bera mig yfir ósa. Við hittum líka frábært fólk, til dæmis síðasta daginn í lok ferðar, þá hittum við mæðgurnar Brynhildi og Pálínu á Hesteyri og þær voru æðislegar, bökuðu pönnukökur ofan í okkur og sungu með okkur. Ég var eina barnið í hópnum og allir voru mjög góðir og skemmtilegir við mig. Við vorum tvisvar með ruslabrennur og það var skemmtileg stemning í kringum bálið. Ég fékk að kasta ýmsu dóti á eldinn, meðal annars fékk ég að brenna gönguskóm af einum manninum, en þeir höfðu eyðilagst í ferðinni," segir Daði sem stefnir á að ganga Laugaveginn sem allra fyrst. Frá þessu var sagt á mbl.is.

Vefumsjón