11.03.2010 - 11:20

Óskalisti Melrakkaseturs

Við hjá Melrakkasetrinu erum nú á fullu að undirbúa sýninguna handa ykkur. Nú hjálpumst við öll að til að sýningin geti orðið eins og best verður á kosið. Við höfum fengið margar góðar ábendingar og hugmyndir frá allskonar fólki auk eigin hugmynda sem sumar hafa tekið nokkrum breytingum og þróast eins og gengur.

Til dæmis langar okkur að fá góða upplesara til að lesa inn fróðleik um refina og veiðisögurnar svo hægt sé að „hlusta á sýninguna" meðan gengið er um sýningarsalinn. Draumurinn er því að geta eignast spilara með heyrnartólum til að lána gestunum okkar.

Einnig höfum við fengið loforð um nokkra búta af kvikmyndaefni, sem væri gaman að deila með gestum sýningarinnar. Þetta eru hágæða myndskeið af yrðlingum að leik og fullorðnum refum í ýmsum erindum. Til að þetta sé hægt þurfum við að eignast myndskjá og tölvubúnað til að spila myndskeiðin.

Á næstunni munum við leita til fyrirtækja og athuga hvort einhver geti gengið í lið með okkur og hjálpað okkur að kaupa hluti á óskalistanum. Hugmyndin er sú að bjóða fyrirtækjum, og einnig einstaklingum sem þetta lesa, að kaupa einn eða fleiri spilara og/eða tölvu/skjá og komast þannig á heiðurslistann okkar góða, sem hangir frammi á setrinu og framlög talin upp.

Gert er ráð fyrir að spilari kosti 15 þúsund kr. og að skjár kosti 35 þúsund kr.

Þar sem Melrakkasetrið hefur non-profit stöðu, þannig að allur ágóði fyrirtækisins fer í rekstur og áframhaldandi uppbyggingu, er ekki ólíklegt að framlög til setursins séu frádráttarbær frá skatti.

Þeir sem vilja styðja okkur í þessu verkefni, vinsamlegast skráið ykkur í tölvupósti til melrakki@melrakki.is. Við mælum einnig með 1% for the planet fyrir fyrirtæki sem vilja styrkja starf Melrakkasetursins.
Vefumsjón