14.06.2010 - 00:08

Opnunarhátíđin - myndir

Elfar Logi
Elfar Logi "refaskytta"
Opnunarhátíð Melrakkaseturs Íslands var haldin á laugardaginn 12. júní kl. 12 og heppnaðist einstaklega vel. Yfir 200 manns mættu á opnunina og mátti sjá bros á vör á hverjum manni enda sýnist okkur vel hafa tekist til að öllu leyti. Gestir komu alla leið frá Þýskalandi; Frank Drygala, dýrafræðingur, Noregi; Honoria og Svíþjóð; Anders Angerbjörn, prófessor við Stokkhólmsháskóla, Karin Norén, nemandi hans og Bodil Elmhagen, aðstoðarprófessor við Stokkhólmsháskóla.
Dagbjört Hjaltadóttir stýrði athöfninni og flutti kveðjur frá Forsetaskrifstofunni, Katrínu Júlíusdóttur iðnaðarráðherra, Katrínu Jakobsdóttur menntamálaráðherra og Svandísi Svavarsdóttur Umhverfisráðherra - og auk þess sjálfum Sir David Attenborough. Heillaóskaskeyti barst frá hinu Íslenzka tófuvinafélagi og ýmsir aðilar úr ferðaþjónustunni báðu fyrir kveðjur. Ómar Már Jónsson, sveitarstjóri Súðavíkurhrepps, afhenti Melrakkasetrinu húsið í Eyrardal formlega með handsmíðuðum lykli úr eik sem festur er á norska skífu en það á vel við þar sem húsið er tilsniðið í Noregi og flutt inn til uppsetningar hér. Tilnefndur var verndari sýningarinnar, Páll Hersteinsson, líffræðiprófessor.
Sýnt var atriði úr leikritinu "Gaggað í grjótinu" sem Kómedíuleikhúsið mun sýna á fimmtudagskvöldum á Melrakkasetrinu í sumar. Að endingu var það Guðjón Arnar Kristjánsson sem opnaði sýningu Melrakkasetursins og fékk Kjartan Geir Karlsson, refaskyttu úr Súðavík sér til aðstoðar.

Á opnuninni var boðið upp á heimabakað bakkelsi frá mætum konum í bænum, og Barða stjórnarmanni. Svo mættu nokkrar til viðbótar í opnunina og hjálpuðu til við að hella í glös og halda öllu hreinu og fínu - það var ómetanleg hjálp. Við fengum að láni fína sófann úr stásstofunni en það er hún Salla sem á hann en tengdafaðir hennar keypti hann á "aksjón" eða uppboði í Eyrardal fyrir langalöngu og hún lét gera hann upp. Einnig lánaði Kjartan Geir, eiginmaður Söllu, gærupokann sinn sem hann saumaði sér til að halda á sér hita við refaveiðar, hann hlóð einnig skotbyrgi inni í sýningarsalnum.
Setrinu bárust ýmsar gjafir, m.a. bókin "Nú brosir nóttin" eftir Theodór Gunnlaugsson, yrðlingaboga frá Guðmundu Guðmundsdóttur, dóttur Guðmundar Einarssonar refaskyttu og eiginkonu Jóns Oddssonar "rebba". Við fengum einnig tvær birkiplöntur frá Magnúsi smið og Áslaugu Jensdóttur. Þau komu einnig með myndamöppu með sögu uppbyggingarinnar. Gunna Beta leðursmiður gaf fallega gestabók og er hún næstum alveg full enda hafa margir heimsótt okkur þessa fyrstu opnunarhelgi.

Sýningin verður opin alla daga í sumar frá kl. 10-18 og kaffihúsið til kl. 22 en þar er opin internettenging og kaldur bjór, hvítvín og rauðvín. Rebbakakan hefur alveg slegið í gegn og í húsinu er dásemdar ilmur af nýlöguðu kaffi og heitum vöfflum sem boðið er upp á á hverjum degi.

Myndir af opnuninni er hægt að sjá á vefsíðu Súðavíkurhrepps
Vefumsjón