04.10.2009 - 12:03

Opiđ hús - myndir

Frá kynningunni í Eyrardal. Mynd: Oddný E. Bergsdóttir
Frá kynningunni í Eyrardal. Mynd: Oddný E. Bergsdóttir
« 1 af 7 »
Við buðum íbúum Súðavíkur á opið hús í Eyrardal í gær, laugardaginn 3. október. Það var náttúrulega kalt í húsinu sem er enn á byggingarstigi og hálfkarað.
Fólkið var yfirleitt mjög hrifið af því hvað væri búið að gera húsið fínt og almennur áhugi fyrir því að koma því í gagnið aftur. Margir sem komu þekktu húsið áður fyrr og gátu sagt frá því hvernig fyrirkomulagið var innandyra og hvar þetta og hitt var staðsett. Sýningin sjálf verður í viðbyggingu hússins þar sem rekið var bakarí og nokkrir af eldri gestunum mundu eftir því að hafa komið þar inn.
Við fundum fyrir miklum meðbyr með framtíðarplönin, sýninguna og kaffihúsið. Hugmyndir um leikhúsloft vöktu lukku og það verður gaman að hafa fólkið í bænum sem bakland og aðhald í uppbyggingunni í vetur.
Einn gestanna, Helgi Bjarnason, bauð okkur dýrmætan grip á sýninguna, forláta gamla byssu sem faðir hans átti og notaði mikið hér áður fyrr. Einnig hafa okkur borist aðrir persónulegir munir á sýninguna, m.a. úr eigu Finnboga Péturssonar frá Litlabæ, okkur þykir mjög vænt um þessar gjafir. Stór hluti sýningarinnar verður helgaður refaveiðum og refaveiðimönnum og því mikill fengur fyrir okkur að hafa aðgang að slíkum munum til að gera þeirri merku sögu skil.
Við þökkum þeim sem komu og skoðuðu húsið og kynntust verkefninu um Melrakkasetrið og hlökkum til að vinna áfram með bæjarbúum í uppbyggingu þess.
Vefumsjón