31.10.2013 - 14:41

Ný grein um melrakkarannsóknir

Ljósm. Bengt Westman
Ljósm. Bengt Westman

Nú á dögunum birti vefútgáfa Polar Biology tímaritsins nýja grein um melrakkarannsókn sem fram fór á Íslandi og í Svíþjóð. Höfundar voru vísindamenn frá dýrafræðideild Háskólans í Stokkhólmi, líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands og Melrakkasetri Íslands í Súðavík. Fulltrúar Íslands við rannsóknina voru Páll heitinn Hersteinsson og Ester Rut Unnsteinsdóttir.

Greinin ber yfirskriftina „From breeding pairs to fox towns: the social organisation of arctic fox populations with stable and fluctuating availability of food.“

 

Greinin fjallar um niðurstöður rannsóknar á fjölda fullorðinna dýra við greni í ábúð og áhrifa utanaðkomandi þátta á samfélagsgerðina. Meðal annars kemur fram að fæðuframboð getur valdið samfélagslegum breytingum hjá rándýrum eins og melrakkanum, sérstaklega ef um tímabundnar breytingar á fæðuframboði er að ræða. Einstök pör er algengasta samfélagsmyndin hjá melrakkanum bæði á Íslandi og í Svíþjóð. Rannsóknin sýndi aftur á móti að þar sem fæðuframboð var breytilegt voru flóknari samfélagshópar mun algengari (Svíþjóð) en þar sem fæðuframboð var stöðugt (Ísland). Í Svíþjóð kom meðal annars í ljós að myndun samfélagshópa jókst ef fæðuframboð var aukið með fóðrun en náttúrulegar sveiflur í læmingjastofninum höfðu ekki sömu áhrif.

Í geininni er sagt frá því að þó aukið fæðuframboð hafi áhrif á samfélagsform þessara heimskautarándýra eru fleiri áhrifaþættir sem skýra breytingarnar, t.d. skyldleiki og nauðsynlegar varnir gegn samkeppni og afráni.

 

Hægt er að nálgast greinina á eftirfarandi vefslóð:

http://link.springer.com/article/10.1007/s00300-013-1416-3/fulltext.html

Vefumsjón