07.05.2013 - 17:29

Ný grein: kvikasilfursmengun ógnar melrökkum viđ sjávarsíđuna

úr greininni
úr greininni
Þú ert það (og þar) sem þú étur - kvikasilfursmengun ógnar melrökkum við sjávarsíðuna

Niðurstöður spánýrrar rannsóknar sýna að melrakkar sem lifa og éta við sjávarsíðuna innbyrða hættulegt magn kvikasilfurs á lífsskeiði sínu. Vísindamenn frá Leibniz í Þýskalandi, Háskólanum í Moskvu í Rússlandi og Háskóla Íslands/Melrakkasetri eru höfundar greinar sem birt var í gær í vísindaritinu science online journal PLOS ONE, sjá: http://www.plosone.org/article/info%3Adoi%2F10.1371%2Fjournal.pone.0060879

Gerður var samanburður á þremur stofnum melrakka frá ólíkum búsvæðum. Kvikasilfur er eitt þeirra efna sem safnast upp í fæðukeðjunni og vísindamennirnir athuguðu því uppruna fæðunnar sem refirnir voru að éta. Refirnir á hinni rússnesku Commander eyju við Mednyi eyjaklasann lifa nær eingöngu á sjófuglum og selshræjum. Á Íslandi lifa refir við sjávarsíðuna að mestu á sjófugli og öðrum hafrænum fæðutegundum. Innanlands lifa refir að mestu á nagdýrum og fugli af landrænum uppruna. Mismunandi magn kvikasilfurs fannst í sýnum af þessum þremur búsvæðum. Mikið magn kvikasilfurs mældist í refum sem lifa á hafrænni fæðu, bæði á Íslandi og Mednyi.
Vísindamennirnir skoðuðu feldi af melrökkum sem höfðu verið veiddir á Commander eyju frá fyrri tímum  og voru til á söfnum. Niðurstöður mælinga sýndu að refirnir höfðu einnig mikið magn kvikasilfurs á árum áður. Jafnframt var sýnt fram á að kvikasilfrið var upprunið úr fæðu refanna enda fannst mikið magn kvikasilfurs í selum og sjófuglum á rannsóknasvæðinu.
Hinsvegar vakti athygli að lítið magn kvikasilfurs mældist í refum sem veiddir voru inn til landsins á Íslandi. Fæða refa sem búa inn til landsins veldur þeim því ekki kvikasilfursmengun líkt og gerist við ströndina.  Þetta gæti skipt máli fyrir heilbrigði og viðgang stofnsins og tegundarinnar þar sem stærsti hluti vestur Evrópustofnsins er á Íslandi.
Refirnir á Mednyi búa ekki við slík gæði að hafa aðgang að fæðu sem ekki er að hafrænum uppruna, þar er eingöngu framboð á sjávartengdri fæðu. Á þessu svæði varð einmitt alvarlegt hrun í stofninum fyrir 3-4 áratugum. Þó stofninn sé tiltölulega stöðugur í dag er hann afar fáliðaður og lífslíkur yrðlinga og ungra dýra lágar. Bæði ungir og eldri refir eru í undirvigt og hafa gisinn og lélegan feld.

Alex Greenwood, leiðtogi rannsóknarinnar segir svo frá: "Þegar við hófum þessa rannsókn héldum við að orsök þess hve refirnir á Mednyi væru í svona lélegu ástandi væri sýking sem hefði borist til eyjanna af mannavöldum. Við fundum þó engar vísbendingar um neitt slíkt þrátt fyrir nokkuð nákvæma athugun".
Upp frá því fór vísindamennina að gruna að eitthvað annað væri á ferðinni sem orsakaði hið lélega líkamsástand refanna.

"Ef þetta var ekki sýking, gæti þetta kannski verið af völdum einhvers konar mengunar. Okkur datt strax í hug kvikasilfur því vitað er að það hefur fundist í miklu magni í öðrum hryggdýrum, jafnvel á mjög einangruðum svæðum norður heimskautsins. Einnig er það þekkt að kvikasilfursmengun eykur dánartíðni hjá spendýrum. Þar sem kvikasilfur hefur svo slæm áhrif á heilsufar, sér í lagi hjá ungum einstaklingum,  og vegna þess að refirnir á Mednyi lifa eingöngu á sjávartengdri fæðu sem okkur grunaði að  innihéldi kvikasilfur, vildum við sjá samhengið milli fæðunnar og kvikasilfursmagnsins og áhrifum þess á vistfræði þessara dýra. Meginviðfangsefni þessarar rannsóknar var því að meta hvort kvikasilfursmengun úr fæðu refanna geti verið megin orsök þess að tófustofninn á Mednyi eyjum hrundi á sínum tíma", segir Gabriele Treo, annar leiðandi vísindamaður rannsóknarinnar.

Rannsóknin leiddi síðan í ljós að samband var á milli kvikasilfurmagnsins og fæðuvistfræði og landfræðilega útbreiðslu tegundarinnar.
Niðurstöður þessarar rannsóknar sýna fram á að ítreka þarf kröfuna um að stöðva frekari kvikasilfursmengun í hafinu, sér í lagi vegna neikvæðra áhrifa hennar á þá rándýrastofna sem skipa efstu sætin í fæðukeðju norðurskautsins.

 
Vefumsjón