28.07.2012 - 15:18

Mikiđ um ađ vera

·         Mikki og melrakkarnir hafa aldeilis heillað ungu kynslóðina og jafnvel þá eldri líka. Mikki mun aldrei gleyma heimsókn sinni til Vestfjarða og kynnum sínum við vestfirsku tófurnar. Sýningar halda áfram út sumarið, alltaf klukkan 4 á laugardögum. Miðaverð 1.500,- kr. og 50% systkinaafsláttur.

·         Páll Hersteinsson heitinn var, eins og kunnugt er, verndari og hugmyndasmiður Melrakkasetursins. Alnafni hans og barnabarn kíkti í heimsókn ásamt fjölskyldu sinni og skoðuðu þau sýninguna og húsið. Fjölskylda Páls hefur ákveðið að halda áfram stuðningi við Melrakkasetrið eins og hann gerði ávallt. Bækurnar hans, Agga gagg og Refirnir á Hornströndum, fást nú aðeins hjá okkur en það er fjölskylda Páls sem útvegar bækurnar. Við erum stolt af því að halda áfram því starfi sem hann hafði svo mikinn áhuga á og gerum okkar besta til að halda uppi nafni hans sem helsta sérfræðingi heims um málefni melrakkans.

·         Tvær listasýningar eru í gangi í Melrakkasetrinu núna: glæsilegar vatnslitamyndir af refum eftir Guðrúnu Ingibjartsdóttur frá Hestfirði og litríkar þjóðbúningamyndir á akríl eftir Maríu Guðbrandsdóttur. Um sölusýningar er að ræða og tilvalið að ná sér í fallega mynd á góðu verði.

·         Forláta frímerkjasýning er í Rebbakaffi en það er Helgi Gunnarsson frá Hafnarfirði sem hefur safnað tófufrímerkjum frá ýmsum heimshornum. Alveg einstök sýning á heimsvísu og við erum mjög þakklát fyrir að fá að hafa hana uppi hjá okkur í sumar.

·         Kjartan Geir Karlsson (yngri) kom með forláta safn steina sem hann hefur fundið hér í Álftafirðinum, upp á fjöllum og víðar. Mjög skemmtilegir steinar margir hverjir og gaman að hafa safnið hans hér hjá okkur.

·         Nýlega var endurútgefin bókin „Á refaslóðum" eftir Theodór Gunnlaugsson. Guðmundur Guðmundsson og barnabarn hans, Davíð Valdimarsson komu í heimsókn og færðu  okkur tvö eintök af bókinni. Við þökkum þeim kærlega fyrir þessa frábæru gjöf og velvild í okkar garð.

·         Móri og Mjallhvít stækka og stækka. Þau eiga marga aðdáendur og hafa m.a. komið fram´a Facebook, Twitter, Youtube og ýmsum bloggsíðum. Móra og Mjallhvíti finnst gott að fá nýjan fisk og þiggja gjarnan slíkar matargjafir.

·         Josh, einn af sjálfboðaliðum sumarsins hefur hlaðið vörður og skúlptúra úr grjótinu sem er á lóðinni. Hann er flinkur að fá krakkana úr bænum í lið með sér og þær Halldóra og María sem dvelja nú í sumarbyggðinni hafa lært nokkuð vel handtökin í vörðuhleðslu hjá honum.

·         Boðið vestur -  bókin sem allir biðu eftir. Fæst í Melrakkasetrinu að sjálfsögðu, á þremur tungumálum. Mögnuð umfjöllun um vestfirska matargerð í fortíð og nútíð, glæsilegar myndir: Óður til Vestfjarða og jólagjöfin í ár. Höfundar bókarinnar, þau Karl Ásgeir Karlsson og Guðlaug Jónsdóttir, munu koma og árita bókina í Melrakkasetrinu á Bláberjadögum sem verða haldnir helgina 24. - 26. ágúst næstkomandi.

·         Hornstrandasúpan er alltaf jafn vinsæl enda bragðgóð, holl og full af hamingju. Brauðið er alltaf nýbakað, gerlaust og með kraftmiklu korni.

·         Allt sem boðið er upp á í Rebbakaffi er heimabakað, við gerum meira að segja okkar eigin rabbabarasultu.

·         Fyrstu bláberin eru komin í hús - bláberjapæjan hennar Döggu verður því á boðstólnum alveg fram á haustið. Bláberjapæjan er verðlaunauppskrift Bláberjadaga 2011 og er uppskriftina að finna í bókinni Boðið Vestur.

·         Sumarið hefur verið sannkallað tónleikasumar í Melrakkasetri. Við höfum þegar fengið þau Michelle Nielsson, Eggert, Gumma Valda, Skunda litla og Lilju, Neil young tribute Eggerts Nielsson, samspil Stefáns og Fanneyjar, brekkusöngsstemningu og fleira. Alltaf er pláss á loftinu fyrir tónlistarmenn sem vilja koma og spila hjá okkur. Við eigum von á fleirum, m.a. Skúla Mennska og Svavari Knúti, kannski sjálfur Mugison kíki á loftið? Það er aldrei að vita.

·         Læðukvöldið okkar var notalegt og allt fór vel fram að sjálfsögðu, eins og læðum einum er lagið.

·         Markaðurinn hefur verið opinn alla sunnudaga og stundum oftar. Þar hefur verið boðið upp á listmuni og handverk frá Art West og fleiri listamönnum.

·         Við vorum að fá í hús stemningsdiska Tómasar R. Einarssonar en þar er blandað saman náttúruhljóðum, vatnsnið og hljóðfæraleik. Með diskinum fylgir DVD mynddiskur með náttúrumyndum sem mynda góða stemningu við undirspilið. Diskarnir fást hjá okkur á góðu verði.

·         Við höfum boðið upp á að halda afmælisveislur og hefur það tekist vel. Gott fyrir fólk að vita að við lánum loftið fyrir tækifærisveislur og aðra viðburði.

·         Fullt af sjálfboðaliðum hefur verið hjá okkur í sumar og tekið að sér ýmiskonar verkefni. Meðal annars komu þau Lorraine og Francis og snyrtu til á lóðinni. Þau tíndu rabbabara og gerðu rabbabarasultu. Bradley og Kimberley fóru ásamt Zada, dóttur sinni, Suzanne og Josh í refarannsóknarferð í Hornvík. Suzanne þýddi síðan allan texta sýningarinnar á frönsku og Josh hefur hjálpað til á setrinu og í garðinum. Sebastian og Cedric hafa einnig hjálpað heilmikið til í setrinu og í garðinum líka og m.a. þýtt matseðilinn á frönsku. Sjálfboðaliðar okkar sjá um að gefa yrðlingunum, veita leiðsögn á sýningunni og spjalla við gesti á sínu tungumáli.

·         Melrakkasetrið er opið til kl. 1 á föstudags og laugardagskvöldum og hér er alltaf notaleg stemning. Internetið virkar ágætlega og tilvalið að fá sér einn öl meðan kíkt er á póstinn eða netmiðla.

·         Undirbúningur Bláberjadaga stendur nú sem hæst, dagskráin er klár og mikil tilhlökkun hjá okkur rebbunum. Eins og áður verður Melrakkasetrið miðstöð Bláberjadaga, haldnir verða tónlekar á föstudagskvöldinu og margir viðburðir í boði á laugardag og sunnudag. Fylgist með dagskránni hér á síðu bláberjadaga.

 

Ávallt velkomin í Melrakkasetrið !!

 

Vefumsjón