15.06.2011 - 16:37

Melrakkasumariđ 2011

Mortz, Dotan and Pete with Fjóla, Fanney and Sonja
Mortz, Dotan and Pete with Fjóla, Fanney and Sonja
Fyrsta rannsóknarferð sumarsins verður farin um helgina. Dvalið verður í Hornvík í viku eins og áður og verður fylgst með samskiptum ferðamanna og refa. Í þetta skiptið eru fleiri sjálfboðaliðar en áður og verður því hægt að fylgjast með á fleiri stöðum til að fá samanburð.

Sjálfboðaliðarnir okkar koma frá ýmsum löndum og hafa ólíkan bakgrunn og reynslu. Fyrst voru þau Lexie og Conor frá Californíu en þau dvöldu í Mjóafirði í mars til að freista þess að sjá Frosta. Ekkert sást til hans en einhver ferfætlingur kom og tók æti sem sett var út, þegar enginn var nálægt til að mynda eða skrá.

Síðan komu Tobi og Karlien í apríl, þau eru frá Belgíu en hafa ferðast talsvert um heiminn. Þau lentu í heilmiklu stússi vegna fundahalda í Melrakkasetri og útbjuggu meðal annars svo frábæra súpu að rómur hennar barst um víðan völl. Nú heimta gestir okkar súpu á hverjum degi og ætli við köllum hana ekki bara Karliens-súpuna. Þau sinntu einnig refaskoðun og hittu félaga vora í Hestfirði, sem vonandi verða sýningarhæfir fyrir ljósmyndun fljótlega.

Næst voru það Sabrina og Remco frá Hollandi en þeirra hlutverk var að halda áfram leitina að Frosta. Það gekk ekki betur en svo að Sabrina veiktist heiftarlega og varð frá að hverfa. Þau hafa þó ekki gefið okkur upp á bátinn enda með eindæmum hæfileikarík. Við eigum von á því að heyra frá þeim síðar og jafnvel fá sendar vörur sem þau ætla að hanna fyrir setrið.

Móri, eða Moritz, er þýskur jarðfræðinemi sem kom til okkar um miðjan maí. Hann hefur hjálpað til við ýmislegt á setrinu og eiginlega er hann orðinn einn af sumarstarfsmönnunum. Móri kemur með í Hornvík í júní og mun gera jarðfræðilega úttekt á refagrenjum, mjög spennandi verkefni.

Dotan frá Kanada og Pete frá Danmörku hafa dvalið í Hestfirði í fimbulkuldum vorsins og fylgst með ferðum refanna þar. Barði sótti þá á mánudeginum þegar við héldum upp á afmæli setursins og síðan þá hafa þeir dvalið í Súðavík til að aðstoða við hitt og þetta. Dotan kemur með í Hornvík næstu helgi en Pete mun aðstoða við ýmislegt á setrinu á meðan.

Lauma gilbe er frá Lettlandi og er nemandi við Háskólasetur Vestfjarða. Hún mun sjá um að framkvæma spurningakönnun meðal ferðamanna sem koma í Melrakkasetrið og á fleiri stöðum á norðanverðum Vestfjörðum. Spurningakönnunin er hluti af verkefni okkar innan The Wild North.

Edwin, William og Carla eru nemendur í Háskólasetri Vestfjarða. Þau munu dvelja í Hornvík í viku í júní og vakta tófur og ferðamenn. Þessi rannsókn er hluti af verkefni okkar innan The Wild North.

Samstarfsaðilar okkar í The Wild North á Vestfjörðum eru Náttúrustofa Vestfjarða, Fræðasetur Háskóla Íslands, Hornstrandastofa, Vesturferðir og Borea Adventures. Verkefnið er styrkt af Vaxtarsamningi Vestfjarða, Nora og Nata. Sjá nánar um The Wild North hér til hliðar.

Vefumsjón