15.09.2010 - 17:01

Melrakkasetriđ ţriggja ára !

Viđ opnunina 12. júní - mynd: Ţórđur Sigurđsson
Viđ opnunina 12. júní - mynd: Ţórđur Sigurđsson
Melrakkasetur Íslands ehf var stofnað í Samkomuhúsinu í Súðavík 15. september 2007 og á því þriggja ára afmæli í dag.
Stofnfélagar voru 42, einstaklingar, sveitafélög og fyrirtæki - allt aðilar sem höfðu áhuga og trú á verkefninu.
Markmið Melrakkasetursins var að stofna og starfrækja fræðasetur um íslenska refinn þar sem safnað er á einn stað allri þeirri þekkingu sem honum viðkemur í fortíð og nútíð. Jafnframt að opna sýningu á fræðandi efni í máli og myndum um refi í náttúrunni, hérlendis sem erlendis, sögu refaræktar og refaveiða. Ákveðið var að Melrakkasetrið yrði staðsett í gamla bæjarhúsinu í Eyrardal, sem þá hafði staðið yfirgefið í um 30 ár. Súðavíkurhreppur á húsið og stóð til að gera það upp og afhenda það tilbúið þegar Melrakkasetrið yrði opnað.
Samkvæmt áætlun sem sett var fram á stofnfundinum var gert ráð fyrir að Melrakkasetrið yrði opnað með pompi og prakt í júní 2010. Sumum þótti þetta ótrúleg bjartsýni þar sem húsnæðið í Eyrardal var í vægast sagt mjög slæmu ástandi - þetta tókst þó og komu um 300 manns til að gleðjast með okkur á opnunarhelginni. Í sumar hafa komið um 2000 manns á sýninguna okkar og eitthvað fleiri kíkt í kaffi og meððí. Við erum bara nokkuð sátt með árangurinn á þessu fyrsta sumri og bjartsýn á framhaldið enda höfum við fengið talsvert mikið lof og góða umsögn gesta okkar.

Eins og fram hefur komið verður aðeins opið á virkum dögum í Melrakkasetrinu í vetur, frá tíu til fimm, en það er svo hægt að hafa samband til að bóka heimsóknir á öðrum tímum. Nú síðast hýstum við mánaðarlegan Zontafund og voru hér 18 konur sem fengu sjávarréttasúpu og súkkulaðiköku til að hressa sig við í fundahaldinu.

Til að halda upp á afmælið ætlum við að bjóða öllum sem vilja heimsækja okkur frítt á sýninguna næsta sunnudag, opið hús frá klukkan eitt til fjögur, kaffihúsið verður með nýbakað bakkelsi og brosmildar afgreiðslustúlkur.
Hinn feiknavinsæli leikþáttur "Gaggað í grjótinu" verður svo sýndur á loftinu klukkan fimm. Aðgangseyrir er 1500 krónur.
Klukkan átta á sunnudagskvöldið verða síðan tónleikar í Melrakkasetrinu, en það er hann Skúli Mennski sem ætlar að töfra fram notalega tóna. Þess ber að geta að þetta er ekki fyrsti tónlistarviðburðurinn í húsinu því Haukur (Skundi litli) og Lilja spiluðu og sungu í brúðkaupi sem var haldið hér í byrjun júlí. Það hefur því fengist staðfest að hljómburður er með eindæmum góður í Eyrardal.


Verið velkomin í heimsókn á sunnudaginn - óskum okkur til hamingju með afmælið

Frosti og melrakkarnir verða á staðnum ...
Vefumsjón