04.05.2010 - 09:06

Melrakkar í Perlunni og Ćvintýralandi

Jón Ţórđarson frá Bíldudal segir gestum sögur ađ vestan
Jón Ţórđarson frá Bíldudal segir gestum sögur ađ vestan
« 1 af 2 »
Melrakkasetrið mætti á "Vestfirði" á ferðakynningu sem haldin var í Perlunni sl. helgi og kallaðist Íslandsperlur. Þar var margt um manninn og hægt að "ganga hringinn" og heimsækja landshlutana. Þemað var náttúran sjálf og hvað er náttúrulegra á Vestfjörðum en einmitt Melrakkinn. Við sýndum tvo af glænýjum uppstoppuðum refum sem verða á sýningu Melrakkasetursins í framtíðinni.

Í fylgiblaði Morgunblaðsins sl. helgi: "Ævintýralandið - Ferðalag um Ísland 2010" sem Athygli ehf. gaf út birtist svo eftirfarandi grein um Melrakkasetrið:

120 ára nýuppgert hús í Súðavík hýsir nýstárlegt framtak í ferðaþjónustunni:
Melrakkasetur Íslands opnar í júní

„Við munum opna Melrakkasetrið þann 12. júní í sumar. Þetta verður í senn óvenjuleg sýning en um leið fróðleikur og skemmtun. Hér verður líka rekið kaffihús og til að gefa innsýn í frumlegar hugmyndir sem við hrindum í framkvæmd þá verður meira að segja hægt að komast hér í rebba-jóga á efri hæðinni," segir Ester Rut Unnsteinsdóttir, líffræðingur í Súðavík og framkvæmdastjóri Melrakkaseturs Íslands
Þetta merkilega setur á sér talsverðan meðgöngutíma. Ester Rut starfaði á árunum 1998 og 1999 við refarannsóknir á Hornstöndum og tók eftir það sérstöku ástfóstri við svæðið, líkt og margir aðrir hafa gert. Leiðbeinandi hennar í rannsóknunum var Páll Hersteinsson og varpaði hann fram þeirri hugmynd að komið yrði á fót safni um villta íslenska refinn á Vestfjörðum, enda sá landshluti þar sem stærstur hluti stofnsins er. Ester kynnti hugmyndina á ferðamálaráðstefnu á Ísafirði árið 2005 og var henni vel tekið en þegar hún sá að enginn bauðst í framhaldinu til að framkvæma hana þá réðist Ester sjálf í verkefnið. Og síðan hefur boltinn rúllað markvisst áfram.
Melrakkasetur Íslands ehf. var stofnað í Súðavík 15. september 2007 og meðal stofnfélaga eru einstaklingar, fyrirtæki og sveitarfélög. Markmið með stofnun setursins er að safna á einn stað allri þekkingu, efni og hlutum sem tengjast melrakkanum í fortíð og nútíð. Að setja upp sýningu fyrir ferðamenn þar sem mun verða á boðstólnum fræðandi efni í máli og myndum um refi í náttúrunni, hérlendis sem erlendis, refarækt og refaveiðar. Ennfremur að stuðla að og taka þátt í rannsóknum á líffræði tegundarinnar og þróun sjálfbærrar náttúrulífs-ferðamennsku.

Refurinn, veiðin og veiðimenn
Melrakkasetri Íslands var valinn staður í Eyrardalsbænum í Súðavík, í friðuðu 120 ára gömlu húsi mitt á milli gömlu og nýju byggðarinnar. Húsið er í eigu Súðavíkurhrepps og var í niðurníðslu en gekk sannarlega í endurnýjun lífdaga með nýju hlutverki.
„Húsið hentar mjög vel fyrir Melrakkasetrið en við getum sagt að starfsemin verði þrískipt. Á jarðhæðinni verður sýning helguð refum, refaveiðum og refaveiðimönnum. Síðan verður kaffihús einnig á neðri hæðinni en á efri hæð verður m.a. fjölnota rými þar sem Kómedíuleikhúsið mun í sumar sýna melrakkaeinþáttung. Svo verðum við með skákmót, rebba-jóga og hvaðeina sem okkur dettur í hug að gera skemmtilegt. Þetta er verkefni sem er að vinda upp á sig og miklar væntingar gerðar til þess," segir Ester.

Melrakkinn eina upprunalega landspendýrið
„Við vinnum með Háskóla Íslands, Náttúrustofu Vestfjarða, Háskólasetrinu á Vestfjörðum, erlendum vísindamönnum og sinnum þannig rannsókna- og fræðastarfi, jafnframt því að miðla til almennings upplýsingum um melrakkann," segir Ester en melrakkinn á sér merkilega sögu í íslenskri náttúru. Hann er eina upprunalega landspendýrið á Íslandi en þó margar norðlægar dýrategundir hafi verið á undanhaldi síðustu árhundruðin þá lifir íslenski melrakkinn góðu lífi í harðgerðri náttúrunni.
„Melrakkinn er merkilegt fyrirbæri. Á Norðurlöndunum erum við einna ríkust af þessari tegund. Þetta er fágæt skepna, bundin við heimskautasvæðin og hefur hopað norðar vegna hlýnunar og ásóknar annarra suðrænni tegunda. Í Skandinavíu hefur miklum peningum og orku verið varið í að verja fá dýr sem eftir eru en hér á landi eigum við sterkan stofn sem hefur verið einangraður hér frá lokum ísaldar," segir Ester og bætir við að ferðamenn sjái gjarnan tófur á ferðum sínum um Vestfirði.
Melrakkann getur fólk skoðað hér á sýningunni í sumar og fræðist um þessa merkilegu dýrategund í náttúru Íslands," segir Ester Rut Unnsteinsdóttir í Melrakkasetri Íslands.
Sýningin verður opin frá 10:00-18.00 alla daga í sumar og kaffihúsið verður opið til kl. 22.00 en þar verður opinn internetaðgangur.

Vefumsjón