07.10.2009 - 16:22

Melrakkar í Fćreyjum

Forstöðumaður Melrakkaseturs er nú stödd í Færeyjum á vinnufundi The Wild North sem er samnorrænt verkefni sem setrið er þátttakandi í. The Wild North gengur út á að þróa sjálfbæra náttúrulífsferðamennsku með villt dýralíf í aðalhlutverki. Ásamt Melrakkasetrinu eru Selasetur Íslands og Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Húsavík auk sveitafélagsins Skagaströnd hlutaðeigendur í verkefninu. Verkefnið fjallar um aukinn áhuga ferðamanna á villtu dýralífi á norðurslóðum, s.s. hvali, seli, fugla og refi. Samstarfslönd okkar eru Grænland (hvalir, fuglar), Noregur (fuglar) og Færeyjar (fuglar) en Melrakkasetrið er hið eina sem leggur áherslu á refi.
Hver hópur kynnir sínar niðurstöður frá árinu en hver aðili stundar rannsóknir á sínu svæði, kannar áhrif ferðamanna á sinn markhóp auk þess að gera athuganir á ferðamönnum. Í okkar tilfelli eru það rannsóknir á refum og ferðamönnum í Hornvík en þær hófust sumarið 2008. Í rannsókninni fylgdumst við með ferðamönnum sem áttu leið fram hjá virku greni í Hornvík, við töldum ferðamennina og mældum tímann sem þau voru innan grensvæðisins auk þess að skrá niður hegðun dýranna og viðbrögð þeirra við ferðamönnunum. Á okkar svæði hafa líka farið fram rannsóknir á ferðamönnum, unnar af Rannsókna- og fræðasetri HÍ. Niðurstöður rannsóknanna verða nýttar til að þróa vottunarkerfi fyrir ferðaþjónustaðila sem staðfestir að þeir sýni villt dýralíf á ábyrgan hátt, án þess að valda skaða eða óþarfa truflun. Slík vottunarkerfi eru mikið notuð í Evrópu og gera ferðamenn æ meiri kröfur til ferðaþjónustuaðila að þeir geti staðfest að þeir uppfylli lágmarkskröfur í ábyrgri ferðamennsku. Vottunarkerfin sem til eru henta ekki fyrir norðurslóðir og því telur hópurinn að það sé brýnt að þau séu hönnuð eftir okkar forsendum og henti fyrir okkar verkefni. The Wild North er styrkt af Norrænu Ráðherranefndinni (NORA) og Grænlenska samstarfssjóðnum (NATA) auk norska nýsköpunarsjóðnum o.fl.
Verkefnið felur í sér þjálfun og fræðslu og skiptast þátttakendur á því að halda námskeið og vinnufundi í sínu landi. Ráðgjafi er Dr. Deborah Benham en hún hefur áralanga reynslu í uppbyggingu sjálfbærrar dýralífsferðamennsku og þróun vottunarkerfa í heimalandi sínu og víðar.
Meðþátttakendur Melrakkaseturs Íslands eru Náttúrustofa Vestfjarða, rannsókna- og fræðasetur HÍ á Vestfjörðum, Vesturferðir og Borea Adventures.
Vefumsjón