19.10.2011 - 09:13

Meistari fallinn frá

Páll međ Karin Norén og Bodil Elmhagen á leiđ til Hesteyrar í júní 2010
Páll međ Karin Norén og Bodil Elmhagen á leiđ til Hesteyrar í júní 2010
« 1 af 2 »
Hugmyndasmiður Melrakkasetursins og verndari, Páll Hersteinsson, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands, lést á hjartadeild Landspítala við Hringbraut 13. október 2011.

Páll var virtur og afkastamikill fræðimaður og var í góðu samstarfi við vísindamenn og rannsóknastofnanir hérlendis sem erlendis. Árið 1998 var lagður grunnur að áralöngu samstarfi Páls, fyrir hönd Háskóla Íslands og Náttúrustofu Vestfjarða, með rannsóknum á refum á Hornströndum og víðar á Vestfjörðum. Stofnanirnar sameinuðust um ráðningu starfsmanna og gerðu út leiðangra saman. Meðal annars var Ester Rut Unnsteinsdóttir, forstöðumaður Melrakkaseturs Íslands, ráðin til að dvelja í Hlöðuvík sumarlangt árið 1998 og skrá atferli refa við greni. Sumarið 1999 var farið í annan leiðangur þegar siglt var á Neista Guðmundar Jakobssonar um allt friðland Hornstranda og farið á öll þekkt greni til að meta ábúð refa. Með í för, ásamt skipstjóranum, var sjálfur Jón Oddsson refaskytta, þá orðinn aldinn maður en svo minnugur að ábendingar um grenstæði stóðust fullkomlega.

Sameiginleg hugðarefni hafa leitt til áframhaldandi samstarfsverkefna og vinátta skapaðist milli manna. Ester Rut hefur sinnt sérverkefnum fyrir Náttúrustofuna, sem í mörgum tilfellum voru unnin í samstarfi við Pál. Melrakkinn var auðvitað eitt helsta áhugamál Páls og góðar aðstæður til rannsókna á honum hér á Vestfjörðum.

Margt skemmtilegt gerðist á þessum árum, t.d. var frægt að fyrsta setning Páls eftir að hann kom af Hornströndum var „hvar kemst ég í sturtu" og eitt sinn þurfti að hafa samband við Pál í gegnum útvarpið til að fá hann til að koma á móts við björgunarsveit, sem var send eftir honum á Hornstrandir um miðjan vetur.

Í apríl 2005 var Páll beðinn um að koma með erindi á ferðamálaráðstefnu sem haldin var að Hömrum á Ísafirði. Páll komst ekki á staðinn á þeim tíma og sendi Ester Rut í sinn stað. Í erindinu var sett fram sú tillaga að vestfirðingar gerðu tófuna að einkennisdýri sínu, hefðu af henni tekjur í ferðaþjónustu og settu á stofn fræðasetur um tegundina.

Það gerðist þó ekki að sjálfu sér en fór svo að lokum að Ester Rut, ásamt fleirum, stofnaði Melrakkasetur Íslands og hóf það starfsemi sína í gamla Eyrardalsbænum í Súðavík sumarið 2010. Með stofnun Melrakkasetursins skapaðist nýr vettvangur fyrir rannsóknir og miðlun upplýsinga með fræðandi sýningu um melrakkann. Frá upphafi var Páll Hersteinsson faglegur ráðgjafi setursins og við opnunina var hann tilnefndur verndari Melrakkaseturs Íslands.

Eitt af stærri verkefnum sem Náttúrustofan, Ester og Páll tóku þátt í var rannsókn þar sem borið var saman framlag læðu og steggs við umönnun yrðlinga. Rannsóknin, sem stóð frá árinu 2002 til 2007, var fjölþjóðleg og þátttakendur frá Íslandi, Noregi, Svíþjóð og Ísrael. Einnig hefur orðið til samstarfsverkefni um að safna og kryfja þau dýr sem felld eru á vegum sveitarfélaga og til að afla upplýsinga um ástand refastofnsins á Vestfjörðum. Ester hefur enn fremur safnað gögnum um ábúð grenja, fyrirkomulag óðala og fleira í Hornvík sl. áratug. Rannsókn um áhrif ferðamanna á refi hófst árið 2008 og stendur enn yfir en hún er einnig samstarfsverkefni Náttúrustofunnar, Melrakkasetursins og Háskóla Íslands, Pál Hersteinsson og þá nýstofnað fræðasetur á Vestfjörðum.

Samstarf Náttúrustofu Vestfjarða Melrakkaseturs Íslands og Páls Hersteinssonar, sem hófst með rannsókninni í Hlöðuvík sumarið 1998, hefur haldið áfram óslitið síðan. Sem dæmi má nefna að í ágúst sl. var Páll með okkur hér á Vestfjörðum við mælingar (sjá mynd).

Stjórn, starfsfólk og aðrir aðstandendur Náttúrustofunnar og Melrakkasetursins hafa misst góðan samstarfsmann og félaga. Við vottum Ástríði Pálsdóttur, eftirlifandi eiginkonu Páls og sonum þeirra einlæga samúð vegna fráfalls hans.

Þorleifur Eiríksson og Ester Rut Unnsteinsdóttir

Vefumsjón