20.03.2013 - 17:39

Meiri tónlist, saltfiskur og fleiri melrakkar

« 1 af 3 »
Við erum rétt að jafna okkur eftir meiriháttar frábæra tónleika McKinely Black sem fóru fram í síðustu viku en hún er sannarlega með betri tónlistarmönnum sem komið hafa fram hjá okkur, sannkallaður heimsviðburður.

Nú er okkur svo sannarlega aftur til setunnar boðið enda annar tónlistarmaður búinn að boða komu sína næstkomandi föstudag. þetta er hann Kyle Woolard úr hljómsveitinni Anatomy of Frank en hann kom hingað sl. sumar og lofaði góðu. Tónleikar Kyle hefjast kl. 20 en áður ætlum við að bjóða upp á BAKKALÁ, ekta saltfiskrétt sem gestakokkurinn Rúna Esradóttir mun galdra fram. Borðhald hefst kl. 19 stundvíslega og gott ef ekki verður eitthvað gott til að drekka með matnum. Verð fyrir tónleika og mat eru litlar 2.500 krónur og geri aðrir betur !!

Við hvetjum alla til að mæta á staðinn, það er ekki alltaf í boði að fá listamenn á heimsmælikvarða í heimsókn og vera boðið í alvöru veitingar í ofanálag !

Melrakkasetrinu hefur aldeilis vaxið fiskur um hrygg - eða tófa um bak enda fjölgar í okkar röðum eins og hjá skjólstæðingum okkar.
Í byrjun þessa mánaðar hóf störf hjá okkur Hálfdán Helgi Helgason en hann lauk meistaraprófi í líffræði við Háskóla Íslands á sl. ári. Lokaverkefnið hans fjallaði um stofnvistfræði lunda í Vestmannaeyjum. Hálfdán hefur undanfarið unnið við fuglarannsóknir fyrir Norsku heimskautarannsóknastöðina (Norsk Polarinstitutt) meðal annars á Bjarnareyju. Hann er nú staðsettur í Tromsö í Noregi en mun starfa við hlið forstöðumanns að rannsóknarverkefnum á íslenska melrakkanum og málefnum hans.  Áður hafði Borgný Katrínardóttir verið ráðin sem hægri hönd forstöðumanns við vöktun tófustofnsins og úrvinnslu gagna frá Hornströndum. Borgný er einnig líffræðingur og lauk hún meistaraprófi á sl. ári. Hennar verkefnið fjallaði um varpárangur vaðfugla þar sem meðal annars var kannað áhrif afráns auk þess sem Eyjafjallajökull gerði nokkurn usla á rannsóknatímanum. Borgný, sem nú vinnur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands og Hálfdán eru fyrstu fræðimennirnir utan forstöðumanns sem starfa við Melrakkasetrið og vonandi getum við boðið upp á heil stöðugildi fræðimanna í framtíðinni.

Enn spánýrri starfsmaður, Genka Yordanova, hóf störf í Melrakkasetrinu í þessum mánuði. Genka mun sjá um að allt sé spikk og span og nú ilmar allt af hreinlæti hér í Eyrardal. Rúna Esradóttir er að hugsa málið hvort hún vilji taka að sér að vera „viðburðastjóri" Melrakkasetursins enda er húsið orðið að viðburðahúsi og gott ef einhver heldur utan um þau mál. Rúna er ein af okkar „elstu" starfsmönnum og hefur haldið hér landsfræg partí :-)

Genka hefur einnig hafist handa við að sauma nöfn á stóla og er að safna liði til að hjálpa sér við verkefnið. Herdís Samúelsdóttir er einnig farin að sauma og Dagbjört Hjaltadóttir hefur m.a.s. tekið upp nálina. Nú eru fleiri og fleiri stólar komnir með nöfn og við hlökkum til að sýna eigendum stólanna hvað þeir eru orðnir flottir. Penninn reið á vaðið í fyrra og nú leitum við að stólum í kaffihúsið - skyldum við fá einhverja til að tryggja sér sæti þar??

Vefumsjón