02.12.2013 - 11:58

Margir nutu fyrsta sunnudags í ađventu á Melrakkasetrinu

« 1 af 4 »


Í gær var mikið um að vera á Melrakkasetrinu og fjöldi gesta lögðu leið sína þangað til að njóta fyrsta sunnudags í aðventu. Á kaffihúsinu var boðið upp á jólaköku og súkkulaðivöfflur ásamt jólakaffi og jólatei. Meðan gestir gæddu sér á veitingunum var lesið úr nýjum bókum og flutt tónlist. Finnbogi Hermannsson las úr bók sinni Úr húsi afa míns, Soffía Vagnsdóttir sagði frá og las úr bókinni Barnið þitt er á lífi og Ómar Smári Kristinsson sagði frá og las úr Hjólabókunum sínum. Á milli upplestra sungu krakkar úr Súðavíkurskóla nokkur lög. Á loftinu var handverks- og nytjamarkaður. Um morguninn stóð foreldrafélag Súðavíkurskóla fyrir jólaföndri og piparkökumálun þar sem fjölmennt var bæði börn og foreldrar.

Dagskrá gærdagsins tókst með ágætum og ekki annað að sjá á gestum en að þeir hafi haldið ánægðir heim.

 

Komin er niðurstaða í smákökusamkeppni Melrakkasetursins 2013. Alls bárust 7 smákökutegundir í samkeppnina og 31 gestur tóku þátt í að velja bestu kökuna. Besta kakan að dómi gesta var Snjóboltar sem þau Birta Lind, Flóki Hrafn og Milla bökuðu. Næst flest atkvæði fékk kaka sem Genka Yordanova bakaði og í þriðja sæti varð kaka frá Maria Danium.

Sigurvegararnir fá bókina Boðið vestur í verðlaun, Genka fær bókina Refirnir á Hornströndum og Maria fær bókina Þjóðlegt með kaffinu.

Melrakkasetrið þakkar öllum sem tóku þátt í þessari skemmtilegu smákökusamkeppni, bæði þeim er sendu inn kökur og þeim er þátt tóku í að velja bestu kökuna. Næstu tvo sunnudaga mun verðlaunakakan verða á boðstólnum  í Melrakkasetrinu ásamt fleiri girnilegum kökum og skemmtilegum uppákomum.

 

Nú er ekki annað að gera en láti sig hlakka til næstu helgar en þá verður mikið um að vera á Melrakkasetrinu, bæði á föstudagskvöldinu og á sunnudeginum.  

Vefumsjón