09.04.2013 - 17:12

Má bjóđa ţér sćti - aftur ?

stóll eins og verđur í Rebbakaffi
stóll eins og verđur í Rebbakaffi
Nú hikar sumarið við að heimsækja okkur hingað í Súðavík en samt sem áður erum við komin í vorverkin, heldur betur. Við höfum nánast lokið við að handsauma nöfn í alla stólana sem seldust á loftið í fyrra. Þær Genka, Dagbjört, Anna Elísa, Ragnhildur, Mekkín og Herdís Mjöll hafa allar tekið upp nálina og saumað nöfn.
Margir hafa tekið eftir nöfnunum á stólunum og framtakið almennt lofað í hástert. Þetta eru líka svo flottir og þægilegir stólar og Penninn fær heiðurinn af því að ríða á vaðið - ásamt öllu því fólki sem fjárfesti í sæti á loftinu okkar.

Nú er búið að panta stóla í kaffihúsið og þar verða forláta íslenskir stólar frá Sólóhúsgögn (www.solo.is). Þeir eru hvítir og verða auðvitað til sölu eins og þeir sem fóru á loftið. Ef einhver sá eftir því að hafa ekki tryggt sér sæti, eða langar að eiga sæti bæði uppi og niðri, þá er hægt að panta sér stól. Verðið er kr. 20.000,- fyrir stólinn sem verður áprentaður með nafni sem kaupandi velur. Nú eru aðeins 16 stólar í boði og um að gera að ná sér í besta sætið. Þar sem stólarnir eru íslensk smíð er verðið hærra en á hinum influttu stólum sem fóru á loftið. Þessir eru líka niðri þar sem langflestir gestir okkar geta séð þá. Við hvetjum alla sem eiga aur í buddunni að styðja okkur í þessu máli og tryggja sér besta sætið í Rebbakaffi. Eins geta hópar eða fjölskylda sameinast um einn stól og merkt sér. Hafið samband í melrakki[@]melrakki.is og tryggið ykkur sæti. Eins og áður er það Jönusjóður sem styrkir stólakaupin og við erum þess fullviss að Jana heitin hefði haft gaman að þessu framtaki.

Það eru fleiri en Penninn og Sólóhúsgögn sem leggja setrinu lið. Sælgætisgerðin Góa sendi okkur átta stykki páskaegg af stærri gerðinni þegar okkur vantaði efnivið í leitina miklu á páskadag. Við erum þakklát fyrir stuðninginn enda ljúft að eiga góða vini í baklandinu. Þess ber að geta að páskaeggjaleitin fór vel fram, vísbendingar voru vel faldar að venju og stóðu börnin sig mjög vel í að láta foreldra sína ganga holtið og næsta nágrenni, á kafi í snjó á köflum. Þetta var hin mesta skemmtun og gott að setjast niður með kaffi og vöfflu eða mála á nokkra steina milli þess sem leitað var.

Nú hefur Melrakkasetrið gert samning við Súðavíkurhrepp um að starfrækja svæðisbundna upplýsingamiðstöð. Setrið verður opið 9 - 22 alla daga í júní, júlí og ágúst og þar verður hægt að fá upplýsingar um gistingu, veitingastaði og afþreyingu innan hreppsins og víðar. Þangað til er opið eftir samkomulagi og er yfirleitt einhver við frá 10 - 17 en annars er hægt að hringja og fá afgreiðslu.

Eins og áður er Eyrardalur til reiðu fyrir allskonar uppákomur og skemmtilegheit. Ef þið fáið hugmynd að viðburði, hafið samband og athugið hvort ekki sé hægt að framkvæma hugmyndina. Frumkvæði heimamanna er best, allir eiga að geta skemmt sér saman í Eyrardal.

Við munum fljótlega auglýsa eftir starfsfólki sem getur unnið öll þau fjölbreyttu verk sem þarf að sinna í Melrakkasetrinu næsta sumar. Fylgist með fréttum á síðunni okkar.

„gleðilegt sumar"
melrakkarnir

Vefumsjón