05.02.2010 - 11:39

Ljósmyndari Melrakkasetursins

Melrakki á Grćnlandi. Mynd: Uri Golman
Melrakki á Grćnlandi. Mynd: Uri Golman
« 1 af 2 »
Uri Golman, danskur ljósmyndari og sérstakur erindreki Canon, og Melrakkasetur Íslands hafa gert með sér samning um samstarf.
Uri verður opinber ljósmyndari setursins og vinnur verkefni sem snýr að því að ljósmynda og skrifa efni um lífshætti melrakka árið um kring. Setrið fær afnot af myndum Uris til framsetningar efnis á sýninguna og á öðrum vettvangi.

Uri hefur mikla reynslu af vinnu á heimskautasvæðum norðursins og hefur bæði skrifað bækur og greinar í fagtímarit ljósmyndara og útivistar. Uri er einnig meðlimur alþjóðlegra samtaka ljósmyndara sem hafa náttúruvernd að leiðarljósi (ILCP) og mun verða okkur innan handar í verkefnum okkar m.a. í þróun sjálfbærrar náttúrulífs-ferðamennsku (verkefni sem við erum þátttakendur í: The Wild North).

Refirnir á Hornströndum verða megin viðfangsefnið enda ein dýrmætasta auðlindin okkar og mikilvægt að nýta hana á ábyrgan hátt með sjálfbærni að leiðarljósi.
Það verður spennandi að vinna með Uri en verkefnið hefst með því að hann, ásamt félaga okkar, Tobias Mennle, munu fara á refaslóðir í mars næstkomandi, til að freista þess að mynda mökunaratferli melrakkans. Þeir munu svo fylgja eftir helstu viðburðum í lífi refanna; yrðlingauppeldi, fæðuöflun, feldskipti, undirbúning fyrir veturinn og hvernig þeir þreyja þorrann og góuna fram á næsta vor.

Fyrir okkur hjá Melrakkasetrinu er Uri sannkallaður hvalreki og má segja að báðir aðilar fái óskir sínar uppfylltar með samstarfinu. Uri segist alltaf hafa dreymt um að ná fleiri myndum af heimskautarefum til að geta sýnt lífshætti þeirra með myndrænum hætti. Hann gerir sér grein fyrir því að tegundin er afar fágæt á heimsvísu og að Friðland Hornstranda sé væntanlega einn sá staður á jarðríki sem auðveldast er að nálgast villta refi í náttúrulegu umhverfi til að ljósmynda þá og rannsaka. Ekki spillir hið magnaða landslag með hin stóru fuglabjörg í forgrunni.

Uri er sjálfstætt starfandi ljósmyndari og mun sjálfur fjármagna starf sitt hér en hann mun skrifa greinar í fagtímarit fyrir ljósmyndara og útivistarfólk, jafnvel einnig bók sem skrýdd verður ljósmyndum af refunum okkar á Hornströndum.

Hægt er að kynnast Uri betur með því að skoða heimasíðu hans: www.urigolman.com
Vefumsjón